11.4.2011 | 08:00
Höfuðstöðvar ESO við sólsetur
Hér sjást höfuðstöðvar European Southern Observatory í Garching við München í Þýskalandi. Myndin var tekin skömmu eftir sólsetur af þaki aðalbyggingarinnar. Hér eru skrifstofur og vísinda- og tæknimiðstöð ESO þar sem margir stjörnufræðingar leggja stund á rannsóknir sínar. Þótt þeir vísindamenn, tæknimenn og stjórnendur sem hér starfa hafi harla ólíkan bakgrunn er eitt sem sameinar alla: óseðjandi áhugi á stjörnufræði.
ESO eru fremstu fjölþjóðlegu stjarnvísindasamtök Evrópu og öflugasta stjörnustöð heims. Í Chile starfrækir ESO stjörnustöðvar á þremur stöðum: La Silla, Paranal og Chajnantor. Þar að auki hefur European Extremely Large Telescope (E-ELT) verið valinn staður á Cerro Armazones, skammt frá Paranal.
Hjá ESO njóta stjörnufræðingar frá öllum heimshornum rannsóknaaðstöðu á heimsmælikvarða en samtökin njóta stuðnings Belgíu, Brasilíu, Bretlands, Danmörku, Finnlands, Hollands, Ítalíu, Portúgals, Spánar, Sviss, Tékklands og Þýskalands. Höfuðstöðvar ESO endurspegla einmitt þennan fjölþjóðlega anda sem ríkir hjá samtökunum. Þótt Ísland eigi ekki aðild að samtökunum (ennþá) hafa íslenskir stjarnvísindamenn notað sjónauka samtakanna, einkum Very Large Telescope, til rannsókna á fjarlægustu og orkuríkustu sprengingum alheims.
Mynd: ESO/H. Heyer
- Sævar
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 6.4.2011 kl. 19:40 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.