19.4.2011 | 23:18
Þarna verða stjörnur til
Hér fyrir ofan er ein af mínum uppáhalds ljósmyndum Hubble geimsjónaukans. Hún er líka alveg ótrúlega glæsileg! Þetta er risastór stjörnuþoka sem geymir eina mestu stjörnuþyrpingu Vetrarbrautarinnar auk stjörnu sem gæti þegar verið sprungin.
Þetta er NGC 3603. Þetta er staður þar sem stjörnur verða til en líka staður þar sem stjörnur hverfa af sjónarsviðinu. NGC 3603 er í einum þyrilarmi Vetrarbrautarinnar kenndum við Kjalarmerkið sem sést á suðurhveli himins í yfir 20.000 ljósára fjarlægð frá okkur.
Gasið í þokunni dygði í næstum 400.000 sólir.
Björtustu stjörnurnar á myndinni eru reyndar gerólíkar sólinni okkar; þetta eru risastórar og mjög heitar bláar stjörnur sem gefa frá sér svo sterkt útblátt ljós og svo öfluga stjörnuvinda að þær hafa blásið gasi og ryki burt og myndað risavaxna geil í þokunni sem umlykur þyrpinguna.
Dökku skýin í efra hægra horni myndarinnar eru Bok-hnoðrar mjög þétt gas- og rykský, um tíu til fimmtíu sinnum massameiri en sólin. Skýin gleypa sýnilegt ljós svo þau sýnast svört. En þegar við skyggnumst inn í það með hjálp innrauðs ljóss sjáum við að þetta er framleiðslustaður stjarna. Stjörnurnar sem þar verða til eiga bara eftir að brjótast út úr myrkrinu. Bok-hnoðrar gætu verið köldustu fyrirbæri alheims.
Massi stjarna ræður öllu um örlög þeirra. Stórar stjörnur endast stutt, kannski 10 milljónir ára, en litlar stjörnur lifa lengur eða í meira en milljarð ára. Á myndinni sjást fjölmargar misstórar stjörnur sem eiga það þó allar sameiginlegt að vera svo til jafnaldra. Því má segja að hér sé svipmynd af ýmsum tegundum stjarna á mismunandi þroskastigum. Með því að bera stjörnurnar í þyrpingunni saman við stjörnur í öðrum þyrpingum er því hægt að komast að því hvernig ýmsir eiginleikar stjarna eins og hitastig og birta breytast þegar stjörnurnar eldast.
Þannig hafa stjörnufræðingar til dæmis fundið áhugaverða stjörnu í þyrpingunni sem heitir Sher 25 (ofarlega, vinstra megin við þéttasta hluta þyrpingarinar). Sher 25 er risastór blár reginrisi sem er við það að springa í tætlur. Hún gæti meira að segja þegar verið sprungin. Ljósið frá henni er bara á leiðinni til okkar með upplýsingar um að stjarnan sé dáin.
Þegar stjarnan springur skilar hún aftur til þokunnar efninu sem hún myndaðist úr.
Og úr öskustónni rísa nýjar stjörnur, ný sólkerfi og ef til vill nýtt líf.
- Sævar Helgi
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Sæll Sævar
Þegar þú talar um "litla stjörnu", hvernig er hún í samanburði við sólina okkar? Er hún ekki nokkurra miljarða ára gömul?
Gunnar Th. Gunnarsson, 20.4.2011 kl. 00:21
Sæll Gunnar
Sólin okkar er tiltölulega lítil stjarna sem lifir nokkuð lengi, í rúmlega 10 milljarða ára eða svo. Hún er sem stendur 4,6 milljarða ára gömul svo hún á nóg eftir.
Sem betur fer er hún tiltölulega massalítil, annars værum við ekki hér.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 20.4.2011 kl. 09:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.