26.4.2011 | 23:27
Fiðrildið sem var einu sinni sól
Einu sinni var þetta sól, ekki ósvipuð sólinni okkar, reyndar fimm sinnum þyngri. Hún lifði þess vegna skemur. Ef til vill hafði hún sólkerfi, og hver veit veit, jafnvel jörð. Kannski líf?
Þegar nálgaðist endalok hennar og vetnisforðinn í kjarnanum var uppurinn, hóf hún að draga fram lífið á þyngri frumefnum eins og kolefni, nitri og súrefni. Við það þandist hún út og breyttist í rauðan risa, 1000 sinnum breiðari en sólin okkar. Við vöxtinn jókst hitastigið á reikistjörnunum um leið og stjarnan óx á himninum. Líklega gleypti hún innstu reikistjörnurnar sem bráðnuðu innan í stjörnunni. Ég velti fyrir mér hvaða undur fóru þar forgörðum. Smám saman myndaðist síðan þessi gas- og rykhjúpur sem við köllum hringþoku.
Eftir um það bil 5-6000 milljón ár bíða sömu örlög sólarinnar okkar. Kannski étur sólin jörðina þegar hún vex. Þá blandast efnin úr jörðinni við sólina. Af stjörnum ertu kominn og að stjörnum skaltu aftur verða. Atómin úr okkur munu því ef til vill nýtast í nýtt líf í fjarlægri framtíð.
Gasið í skýinu er 20.000°C heitt. Það glóir vegna þess að stjarnan í andarslitrunum er gríðarlega heitt, yfir 200.000 gráður. Hún er orðinn hvítur dvergur sem eru meðal heitustu stjarna alheimsins en á stærð við jörðina. Hitastigið segir okkur að stjarnan gefur frá sér sterka útfjólubláa geislun sem örvar gastegundirnar í skýinu svo það lýsir.
Hvíti dvergurinn er samt hvergi sjáanlegur á myndinni. Hann er falinn á bakvið þykkan kleinuhringslaga rykhring sem sést sem dökkt belti um miðja þokuna. Beltið verkar sem fyrirstaða á útstreymi efnisins. Þess vegna er þokan eins og stundaglas í laginu.
Gasið þýtur út í geiminn á næstum milljón km hraða á klukkustund. Á þeim hraða kæmist maður til tunglsins á innan við hálftíma sömu vegalengd og Apollo geimfararnir fóru á fjórum dögum.
Þokan heitir því órómantíska nafni NGC 6302 en hefur verið kölluð Fiðrildaþokan. Þetta risastóra fiðrildi er í um 3800 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Sporðdrekanum. Vængirnir ná hartnær tvö ljósár út í geiminn. Tvö ljósár eru um það bil helmingurinn af fjarlægðinni milli sólar og Proxima Centauri, nálægustu stjörnunni við sólina. Út frá útþensluhraða skýsins hafa stjörnufræðingar reiknað út að stjarnan hefur varpað frá sér gasinu í rúmlega 2000 ár augnablik á mælikvarða alheimsins.
Litirnir í þokunni segja til um ólík frumefni. Rauðu ytri brúnir þokunnar er ljós frá nitri sem er kalasta gasið á myndinni. Ljósleitu svæðin eru af völdum brennisteins en þarna er líka talsvert súrefni (grænleitt), helíum (blátt) og vetni (rauðleitt, bleikt og appelsínugult).
- Sævar
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:57 | Facebook
Athugasemdir
mér finnst þetta krúttlegt heheh XDXDXD hehe geimverur eru í geiminum
sætur (IP-tala skráð) 27.4.2011 kl. 10:54
,,auðvita ,,hvað erum við,,þurfum ekki lengra
finn texti með fiðrildinu ,,rökrétt og fræðandi,,
vilmundur þorgrimsson (IP-tala skráð) 27.4.2011 kl. 22:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.