Almyrkvað tungl á glæsilegum himni

potw1119a.jpg

(Smelltu til að sækja stærri mynd (2,9 mb)

Þann 21. desember 2010 tóku fjölmargir Íslendingar daginn snemma og fylgdust með almyrkva á tungli. Þetta fallega rauða jólatungl sem sveif á himninum þennan kalda desembermorgun sást frá allri næturhlið jarðar.

Við almyrkva gefst okkur kostur á að sjá dimman, stjörnubjartan himinn þótt tunglið sé fullt. Himininn sem birtist yfir Cerro Paranal í Atacamaeyðimörkinni í Chile, einum afskekktasta stað heims, langt frá allri ljósmengun, var engum líkur.

Þessa panoramamynd tók Yuri Beletsky, ljósmyndari ESO. Á henni sést stjörnumprýddur himinn yfir Very Large Telescope ESO á meðan almyrkvinn stóð yfir. Rauð tunglskífan sést hægra megin á myndinni svífandi yfir sjónaukanum Kueyen sem nefndur er eftir tunglinu á Mapudungun, einu af tungumálum innfæddra Chilemanna. Vetrarbrautin teygir sig þvert yfir himininn í allri sinni dýrð. Bjarta stjarnan vinstra megin er reikistjarnan Venus innan um sverðbjarmann, en hann myndast af völdum sólarljóss sem endurvarpast af ryki í sólkerfinu okkar. Bjarminn er mjög daufur og hverfur alla jafna í tunglskininu eða ljósmengun.

Tunglmyrkvi verður þegar tunglið gengur inn í skugga jarðar. Það getur þess vegna aðeins orðið almyrkvað þegar það er fullt. Tunglið sést engu síður en er rautt á litinn því aðeins ljósgeislar af rauða enda litrófsins ná til tunglsins eftir að hafa ferðast í gegnum efstu lög lofthjúps jarðar.

Mynd: ESO/Y. Beletsky

- Sævar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband