22.5.2011 | 17:32
Örlítið um gosmökkinn
Eins og fram hefur komið náði gosmökkurinn mest 20 km hæð. Ekki hefur jafn hár gosmökkur orðið í gosi hér á landi síðan Hekla gaus árið 1947. Þá náði mökkurinn mest upp í 30 km hæð.
Þetta tignarlega en ógnvekjandi útlit gosmakkar er alls ekki óalgengt þótt við höfum ekki séð það í íslensku gosi í einhvern tíma. Það sem ræður hæð gosmakkar er styrkur gossins því hann er mælikvarði á varmaorkuna sem berst upp í gosmökkinn. Því hærri sem gosmökkur er, því öflugara er gosið.
Gosmökkum má skipta í þrjá hluta:
- Fyrir ofan gosrásina er gasþrýstisvæði. Þar þeytast gosefnin upp eins og úr byssu á nokkur hundruð metra hraða á sekúndu. Mestur er hraðinn í plínískum gosum eins og varð í Vesúvíusi árið 79 e.Kr.. Magn reikula efna í kvikunni gass, vatns o.s.frv. ræður að stórum hluta hraðanum. Þegar gosefnin eru komin upp í lofthjúpinn eru þau í gerólíku umhverfi. Þótt gosefnin séu þyngri en loftið í kring þrýstast þau upp á við með eigin skriðþunga og byrja að sjúga til sín loft eins og þotuhreyfill. Loftið hitnar vegna gosefnanna í mekkinum.
- Fyrir ofan gasþrýstisvæðið er iðustreymissvæði. Iðustraumur eru þar sem heitt loft rís á meðan kaldara loft sekkur en hitnar aftur og rís þá á ný. Í iðustreymissvæðinu ber heitt loft fínni agnir eða öskuna upp á við á meðan stærri korn falla til jarðar. Iðustraumar í gosmekki eru svo öflugir að þeir geta dregið með sér gosefnin og jafnvel aukið hraða þeirra upp á við. Þetta svæði getur risið tugi km upp í lofthjúpinn og viðhaldist í lengri tíma. Hraði agnanna í þessum hluta mökksins er yfirleitt nokkrir tugir m/s upp í um 100 m/s.
- Yfir iðusvæðinu er regnhlífarsvæðið, hæsti hluti gosmakkar, og þar myndast sem líkjast regnhlíf. Plíný yngri lýstu fyrstur regnhlífarsvæðinu þegar gaus í Vesúvíusi árið 79 e.Kr. Þessi hluti gosmakkarins verður til þegar þéttleiki gosmakkarins er orðinn jafn mikill og þéttleiki lofthjúpsins í kring. Þá dreifir mökkurinn úr sér svo úr verður sveppalaga eða regnhlífarlaga ský. Engu síður getur mökkurinn haldið áfram að rísa vegna eigin skriðþunga. Þetta regnhlífarský er oftast ekki alveg hringlaga vegna háloftavinda sem ríkja í heiðhvolfinu. Gosefnin falla einna helst úr þessu svæði, hin stærstu næst gosopinu en smærri aska getur borist mjög víða eins og við þekkjum.
Vonandi eruð þið einhvers vísari!
- Sævar Helgi
Eins og kjarnorkusveppur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:47 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir góðar upplýsingar.
Sigurður Haraldsson, 22.5.2011 kl. 17:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.