Í kvöld, miðvikudagskvöldið 1. júní, verður deildarmyrkvi á sólu. Frá höfuðborgarsvæðinu séð hefst myrkvinn klukkan 21:14 þegar sólin er lágt á himni í vest-norðvestri og byrjar þá tunglið að hylja skífu sólar frá hægri. Myrkvinn nær hámarki klukkan 22:01 og hylur tunglið þá 46% af þvermáli sólar samkvæmt upplýsingum úr Almanaki Háskóla Íslands.
Ef veður leyfir sést myrkvinn af öllu landinu þar sem fjöll byrgja ekki sýn. Í tilefni myrkvans standa Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn fyrir opnu húsi í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Þar gefst gestum og gangandi tækifæri til að virða myrkvann fyrir sér á öruggan hátt. Húsið verður opnað klukkan 21 (ef veður leyfir) og eru allir hjartanlega velkomnir.
Hyggist fólk fylgjast með myrkvanum er mjög mikilvægt að fara með gát og tryggja öryggi sitt og annarra. Sólmyrkvaskoðun krefst mikillar árverkni enda getur augnablikskæruleysi valdið óbætanlegum augnskaða. Horfið aldrei upp í sólina, hvorki með berum augum né sjónaukum, án viðeigandi hlífðarbúnaðar. Einfaldasta og ódýrasta aðferðin til að skoða myrkvann er að verða sér úti um logsuðugler af styrkleika 14 sem fást í öllum helstu byggingavöruverslunum. Athugaðu að það er alls ekki óhætt að horfa í gegnum logsuðuglerið með handsjónauka eða stjörnusjónauka.
- Sævar
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.