4.6.2011 | 13:48
Frægasti stjörnufræðingur í heimi
Hver ætli sé frægasti núlifandi stjörnufræðingur í heiminum? Sá sem á þann titil er reyndar frægastur fyrir að vera fingrafimur gítarleikari og fínn lagasmiður en færri vita að hann er stjörnufræðingur. Hann er ótrúlega líkur Ísak Newton og heitir Brian May úr hljómsveitinni Queen.
Brian May heillaðist ungur af stjörnufræði. Hann smíðaði sér sjónauka með hjálp föður síns. Þeim feðgum var greinilega margt til lista lagt því þeir smíðuðu líka saman gítarinn fræga, Red Special, sem May var frægur fyrir að leika á. Hann ku eiga aðeins stærri og betri stjörnusjónauka í dag (Dobsonsjónauka) og nýtur þess að glápa á geiminn með honum.
Áður en Queen sló í gegn nam Brian May stjarneðlisfræði við Imperial College í Lundúnum og var í þann mund að ljúka doktorsprófi þegar frægðin knúði dyra. Hann fór í fjölmargar mælingarferðir til Tenerife á Kanaríeyjum, sennilega orðinn hárprúður mjög þá þegar, þar sem hann vann að rannsóknum á sverðbjarmanum, sem stafar af ryki og ísörðum í fleti sólkerfisins og sólin lýsir upp. Árangur Queen varð þó til þess að May lagði stjarnvísindin til hliðar og einbeitti sér að tónlistinni.
May sneri aftur í nám og lauk doktorsprófi sínu í stjarneðlisfræði árið 2008. Breski stjörnu"áhugamaðurinn" Patrick Moore, sá hinn sami og hefur stjórnað langlífasta sjónvarpsþætti (með sama stjórnanda) heims, The Sky at Night á BBC, hvatti hann til þess. Þeir höfðu áður unnið saman að bókinn Bang! The Complete History of the Universe ásamt Chris Lintott.
Ég veit ekki til þess að May sé virkur í rannsóknum en hann er að minnsta kosti mikill áhugamaður og fylgist vel með. Hann bloggar annars slagið um stjarnvísindaleg málefni.
Ljúkum þessum stutta pistli á lagi sem ég held mikið upp á og heitir 39. Það er af A Night at the Opera, frábærri plötu sem inniheldur meðal annars Bohemian Rhapsody. Lagið fjallar um hóp geimferðalangra sem fer í eins árs geimferðalag (í þeirra huga) en þegar þeir snúa aftur til jarðar hafa liðið hundrað ár vegna tímaþans sem er ein afleiðing takmörkuðu afstæðiskenningar Einsteins.
- Sævar
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.