Hvað er ónjútonskur vökvi og hvernig liti Vetrarbrautin okkar út séð utan frá?

Vonandi hafa sem flestir uppgötvað Tilraunaglasið, frábæran útvarpsþátt um vísindi og tækni í umsjá Péturs Halldórssonar sem er á dagskrá alla föstudaga milli 13 og 14 á Rás 1.

Í seinasta þætti fjallaði hann um skemmtilega tilraun sem við gerðum á Akureyri. Þá útbjuggum við svonefndan ónjútonskan vökva sem er alveg stórmerkilegt fyrirbæri. Stingi maður fingri rólega ofan í slíkan vökva sekkur hann og viðkoman er nákvæmlega eins og um venjulegan vökva sé að ræða. Beiti maður hann hins vegar krafti, til dæmis þrýstingi með því að stappa á honum eða slá í hann, hegðar hann sér eins og fast efni. Þannig er hægt að ganga á honum án þess að sökkva.

Mjög einfalt er að útbúa svona vökva heima hjá sér. Það er ódýr og stórskemmtileg eðlisfræðitilraun fyrir alla fjölskylduna. En hvernig er hann útbúinn? Svarið er að finna í umfjöllun Péturs sem hlýða má á hér.

----

Við erum því miður föst í Vetrarbrautinni okkar enn sem komið er. Við vitum hvernig er umhorfs innan í henni (horfðu til himins á stjörnubjörtu kvöldi og sjáðu sjálf(ur)) en höfum aldrei séð hana utan frá. Með því að mæla fjarlægðir til stjarnanna er hægt að kortleggja Vetrarbrautina okkar og þannig draga upp mynd af því hvernig hún lítur út. Þetta hafa menn gert og komist að því að við búum í svonefndri bjálkaþyrilþoku.

ESO birti fyrir örfáum dögum síðan glæsilega mynd af annarri vetrarbraut sem kalla mætti tvífara Vetrarbrautarinnar:

eso1118a.jpg

Þetta er NGC 6744. Hún er í um 30 milljón ljósára fjarlægð. Beliku skýin í þyrilörmunum eru stjörnumyndunarsvæði, ekki ósvipuð Sverðþokunni í Óríon sem margir kannast við.

Hægt er að lesa sér betur til um þessa fallegu vetrarbraut í frétt frá ESO á íslensku http://www.eso.org/public/iceland/news/eso1118/

----

Minnum á Facebook síðuna okkar og Twitter.

- Sævar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tilraunaglasið er frábær þáttur og sem betur fer endurtekinn alloft bæði nótt og dag. Þátturinn er ótrúlega fræðandi en það á reyndar við um nokkra aðra þætti á Rás 1. Má þar t.d. nefna "Þætti af misgóðum mönnum". Rás 1 hefur alltaf verið mér kær og því kærari sem ég verð eldri og þoli poppsargið verr! Stjörnufræðiþátturinn sem var á Útvarpi Sögu var líka til fyrirmyndar en ég nenni ekki að hlusta á þá stöð lengur svo ég hef ekki fylgst með þeim. Ég verð líklega að endurskrá mig á Facebook til að geta skoðað síðuna ykkar þar þó ég sé að brjóta öll mín fyrirheit!

Kveðja og þakkir

Ragnar Eiríksson

Ragnar Eiriksson (IP-tala skráð) 3.6.2011 kl. 19:37

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Ragnar, þú getur hlustað á þættina hér

http://www.stjornuskodun.is/visindathatturinn

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 3.6.2011 kl. 20:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband