9.6.2011 | 20:50
Ást á leið út úr sólkerfinu
Förum aftur til ársins 1977. NASA var að undirbúa geimskot tveggja ómannaðra Voyager könnunarfara sem áttu að heimsækja gasrisa sólkerfisins og þjóta síðan út úr sólkerfinu til stjarnanna.
Rétt innan við níu mánuðum fyrir geimskot báðu forsvarsmenn verkefnisins hjá NASA stjörnufræðinginn Carl Sagan að útbúa skilaboð til menningarsamfélags sem gæti hugsanlega leynst einhvers staðar þarna úti.
Líkurnar á því að geimverur fyndu Voyagerförin í þessari gríðarstóru auðn sem geimurinn er eru sáralitlar sumir segja engar en það aftraði Carl og samstarfsfólki hans ekki frá því að taka verkið alvarlega. Þeim þótti verkefnið goðsagnakennt. Þetta var eitthvað svo miklu stærra en það leit út fyrir að vera.
Voyager förin áttu að bera með sér tónlist, ljósmyndir og hljóðdæmi, bæði náttúruleg og tæknileg frá jörðinni. Þannig eru Voyager förin nokkurs konar flöskuskeyti, en í stað þess að varpa þeim út í lítið haf eins og Atlantshafið eða Kyrrahafið, er þeim varpað í mesta haf sem hægt er að hugsa sér, alheiminn!
En hvernig átti að miðla þessum skilaboðum? Á þessum tíma var segulband vinsæl tækni en hún er viðkvæm fyrir geislun og sterku segulsviði víðsvegar í geimnum. Skilaboð myndu einfaldlega afmást löngu áður en þau fyndust.
Þess vegna var ákveðið að setja skilaboðin á hljómplötu. Ágætar líkur væru á að háþróað menningarsamfélag gæti áttað sig á því hvernig leika ætti svo forneskjulega tækni, auk þess sem hljómplötur voru harðgerar. Hljómplata úr málmi gæti enst í mörg hundruð milljónir ára í geimnum. Því voru útbúnar tvær koparhljómplötur, húðaðar gulli og þeim komið fyrir á hlið geimfaranna tveggja.
Örðugast var að velja efni á plötuna því plássið var takmarkað. Að lokum fóru út í geiminn 118 ljósmyndir sem sýna meðal annars jörðina, líkama okkar, mann og konu, frjóvgun eggs, fóstur og barnsfæðingu, börn, fjölskyldur, spendýr, skriðdýr og skordýr, íþróttamenn, veiðimenn, vísindamenn, mannlíf í borgum, hýbíli okkar og margt margt fleira.
En hversu fjölbreytt átti tónlistin að vera? Á plötunni eru 90 mínútur af tónlist frá öllum heimshornum. Fyrsta tóndæmið sem geimverurnar heyra, hafi þær eyru á annað borð, er þetta:
Brandenborgarkonsert nr. 2 eftir Bach.
En kannski kunna verurnar betur við rokk og ról og geta þá skemmt sér yfir þessu
Johnny B. Goode með Chuck Berry.
Hugsanlega eru þær óperuunnendur sem njóta þess að hlýða á þetta
sjálfa næturdrottninguna úr Töfraflautu Mozarts.
Carl Sagan vildi líka að þetta lag kæmist á plötuna:
Sérlega viðeigandi og bítlarnir óskuðu þess allir að tónlist þeirra yrði send til stjarnanna. Þeir áttu hins vegar ekki höfundarréttinn að lögunum sínum og því varð ekkert úr því. Útgáfufyrirtækið EMI hafnaði, ótrúlegt en satt.
Carl vildi líka senda kveðjur frá jarðarbúum á ýmsum tungumálum. Hann leitaði til fulltrúa Sameinuðu þjóðanna en ekki reyndist unnt að koma því í gegn. Þáverandi aðalritari samtakanna, Kurt Waldheim, flutti þó ávarp sem er nú á leið til stjarnanna.
En í stað pólitíkusa var leitað til prófessora og nemenda við Cornellháskólann sem Carl Sagan starfaði við. Úr varð samansafn stuttra kveðja á 55 tungumálum sem hefjast á súmerísku, einu elsta þekkta tungumáli mannkyns og enda á kveðju frá fimm ára bandarískum dreng:
Þessi drengur er sonur Sagans.
Önnur dýr en við eiga líka sinn fulltrúa því á plötunni er kveðja frá hvölum.
Á plötunni er líka hljóðlistaverk. Í því heyrast þrumur, eldgos, regn, vindur, hljóð í öpum, hýenum, fílum, kindum, fuglum og hundi, fótspor, gutlandi leirhver og geimskot svo nokkuð sé nefnt.
En á plötunni er líka ást. Hvernig tjáir maður ást í hljóðum? Heyra má hjartslátt ástfanginnar konu, móður kyssa barn og hugga það er það grætur en í kjölfarið heyrast sérkennileg rafhljóð. Þessi rafhljóð eru úr heila ungrar, ástfanginnar konu að nafni Ann Druyan.
Druyan átti stóran þátt í að velja það efni sem finna má á plötunni. Hún og Carl höfðu fellt saman hugi og voru yfir sig ástfangin. Tveimur dögum eftir að þau tjáðu hvert öðru ást sína í fyrsta sinn lét Druyan taka upp rafboð í heila sínum með heilarita. Hún lá á sjúkrabekknum í klukkustund, hugsaði til Carls og kallaði fram þær tilfinningar sem hellast yfir okkur öll þegar við erum ástfangin. Þannig rataði ást á plötuna.
Í mínum huga er þetta einhver stórkostlegasta hugmynd sem menn hafa fengið. Voyager förin eru nefnilega tímahylki sem geta enst í mörg hundruð milljónir ára, miklu lengur en nokkur önnur mannanna verk. Eftir nokkur hundruð milljón ár hafa flekahreyfingar, jöklar og eldgos fyrir löngu afmáð öll ummerki um okkur. Ekkert verður eftir, nema litlu tækin sem útdauð dýrategund, við, sendum út í geiminn fyrir langa löngu.
Ef til vill verða það afkomendur okkar sem finna geimförin þegar tæknin leyfir okkur að ferðast enn hraðar. Vonandi hafa afkomendurnir þó vit á því að láta förin vera og leyfa þeim að sigla til stjarnanna.
Voyager kannarnir hafa nefnilega sögu að segja, líka ástarsögu.
(Flutt sem pistill í Vítt og breitt á Rás 1 mánudaginn 6. júní 2011)
---
Voyager 1. og 2. var skotið á loft árið 1977. Voyager 1 ferðaðist framhjá Júpíter og Satúrnusi en Voyager 2. fór auk þess framhjá Úranusi og Neptúnusi. Báðar flaugarnar þutu síðan út úr sólkerfinu og er Voyager 1 nú bæði hraðfleygasti manngerði hluturinn og einnig sá hlutur sem er kominn lengst frá jörðinni. Þegar þetta er skrifað er Voyager 1 í meira en 16 ljósklukkustunda fjarlægð frá jörðinni en Voyager 2. í rúmlega 13 ljósklukkustunda fjarlægð.
Förin eru nú, eins og fram kemur í fréttinni, við endimörk áhrifasvæðis sólar á leið til stjarnanna. Þessu svæði má líkja við það þegar maður skrúfar frá krana. Vatnið sem skellur á botni vasks dreifist í allar áttir á leið út frá bununni á meðan annað vatn berst til baka. Svæðið þar sem vatnið dreifist í allar áttir er áhrifa svæði sólvindsins en vatnið sem berst til baka er þannig vindur frá öðrum stjörnum. Prófaðu að skrúfa frá krananum, þá sérðu það sem ég er að reyna að lýsa.
Ferðalangar gripnir í segulbólum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Hvaða tækni er notuð til að taka við ljósmyndunum og hvaða tækni er notuð til að hafa samband við förin? Skv. Wikipedia er enn verið að stýra þeim í dag, hvernig er það hægt í 16 ljósklukkustunda fjarlægð?
Rúnar (IP-tala skráð) 9.6.2011 kl. 21:49
Geimförin taka ekki myndir lengur. Seinustu myndir Voyager 1 var portrettmyndin fræga af sólkerfinu, þegar geimfarið leit til baka í átt til sólar. Seinustu myndir Voyagers 1 voru af Neptúnusi.
Haft er samband við förin með útvarpsbylgjum. Þær ferðast auðvitað á ljóshraða og eru því 16 klukkustundir til Voyagers 1. en 13 klukkustundir á leið til Voyagers 1. Samskipti á milli þeirra og jarðar taka því meira en sólarhring. Á geimförunum eru stór loftnet eins og sjá má á myndum af þeim.
Geimförunum er ekki beinlínis stýrt, þau eru ekki með eldsneyti lengur um borð og kjarnorkan fer þverrandi. Hálfri öld eða svo verður ekki lengur hægt að hafa samband við þau. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid/geimferdir/voyager-2/
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 9.6.2011 kl. 22:10
Var það ekki Voyager 2. sem tók myndirnar af Neptúnusi? Og er útvarpsmerkið ekki 13 klukkustundir að ná Voyager 2.? Þetta virðist hafa misritast í svarinu hér að ofan.
Magnús Óskar Ingvarsson, 11.6.2011 kl. 08:05
Jú, auðvitað. Takk fyrir að benda á þetta!
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 11.6.2011 kl. 11:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.