20.6.2011 | 22:32
Ísdrottningin Helena fagra
Sjá ísdrottninguna Helenu fögru!
Mynd: NASA/JPL/SSI/Gordan Ugarkovic. Smelltu til að stækka!
Sólkerfið kemur okkur sífellt á óvart, sér í lagi tungl reikistjarnanna. Hér sést tunglið Helena sem snýst í kringum Satúrnus. Helena er mjög lítil, ekki nema rétt rúmlega 30 km að þvermáli og þess vegna of smágerð til að verða hnöttótt. Hún er álíka langt frá Satúrnusi og máninn er frá jörðinni en deilir hins vegar braut sinni með öðru tungli, Díónu. Helena og Díóna eru þess vegna svonefnd Trójutungl mjög viðeigandi.
Þann 18. júní síðastliðinn sveif Cassini geimfarið framhjá Helenu fögru eins og vonbiðill í 6.968 km hæð yfir og tók af henni nokkrar myndir. Á þessari mynd er Helena óhemju fögur, reyndar á dálítið sérstakan hátt. Hún hefur frekar slétt og unglegt andlit sárafáa gíga sem er harla óvenjulegt því langflest tungl Satúrnusar og annarra reikistjarna eru þakin gígum. Eitthvað hlýtur því að afmá gíga og breyta yfirborðinu en hvað það er veit enginn enn sem komið er.
Eins og sjá eru kvíslamynstur á yfirborðinu og það sem virðist vera giljadrög. Útilokað er að þau séu af völdum vatns því þarna er 170 gráðu frost auk þess sem Helena hefur engan lofthjúp. Það er eins og að einhver roföfl séu í gangi en hver gætu þau mögulega verið? Hér er margt á huldu sem mun halda stjörnufræðingum við efnið næstu misseri.
Það er algjörlega æðsilegt að vera uppi á tímum geimferða að sjá nýja, forvitnilega og skrítna hnetti í nálægð sem við klórum okkur í kollinum yfir eru forréttindi! Þessi mynd mun samt ekki birtast í fjölmiðlum enda höfum við miklu meiri þörf á að vita hvernig Pippa heldur sér í formi.
Húrra fyrir vísindunum!
- Sævar
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:50 | Facebook
Athugasemdir
Góður lokapunktur. Þeir þyrftu bara að koma með nógu góða og lokkandi fyrirsögn og "plata" alla til að kíkja á fréttina, helst eitthvað sem hljómar mjög krassandi. Fact.
Sally (IP-tala skráð) 21.6.2011 kl. 20:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.