Loki: Öflugasta eldfjall sólkerfisins

io-loki-patera-voyager1.jpgÍó eða Jó, eitt af fjórum Galíleótunglum Júpíters, er eldvirkasti hnöttur sólkerfisins. Á Íó eru mörg hundruð virk eldfjöll eins og litadýrð brennisteins á yfirborðinu er til vitnis um. Eldfjöllin eru gífurlega öflug og stundum standa upp úr þeim 500 km háir gosmekkir sem dreifa efni út í geiminn í kringum Júpíter. Askan fellur t.d. á tunglið Amalþeu og litar það rautt.

Á Íó er Loki Patera, um 200 km breið skeifulaga hrauntjörn, rétt norðan miðbaugs á Íó. Loki reyndist vera virkt eldfjall á myndum sem Voyager 1. tók af tunglinu er það þaut framhjá Júpíter árið 1979. Síðar kom í ljós að það er öflugasta eldfjall sólkerfisins en mælingar sýna að frá því stafar um 13-15% af heildarvarmaútgeislun Íós. Vegna þessa mikla hita hafa einhverjir stjörnufræðingar reyndar getið sér til um að Loki gæti verið op í kvikuhafið undir Íó, þótt líklegra sé talið að það sé hrauntjörn.

Vegna heppilegrar staðsetningar á Íó og mikillar orkuútgeislunar er fremur auðvelt að rannsaka Loka frá jörðinni. Mælingar af jörðu niðri og í geimnum á virkni Loka síðustu þrjá áratugi eða svo sýna merki um að hún sé lotubundin. Á um 540 daga fresti eða svo virðist sem yfirborð hrauntjarnarinnar umbyltist en það sést af því að birta eldfjallsins vex og dvínar með þessu millibili. Þetta er svipað og gliðnun úthafshryggja eins og í Atlantshafinu, nema miklu hraðar.

pia02595.jpgHitamælingar sem gerðar voru með nær-innrauðum litrófsrita (NIMS) á Galíleó geimfarinu sýndu að hitinn er hæstur, rétt undir 700°C, á suðvesturhorni Loka eins og myndin hér til hliðar sýnir. Þar virðist kvika stíga upp á við og færast eins og öldur í austurátt en þar er einmitt kaldara svæði og skorpan þá eldri. Ekki eru nein merki um að hraun hafi runnið út fyrir Loka.

Myndir Voyagers sýndu að dökk hrauntjörnin umlykur ljósa eyju. Mælingar Galíleó geimfarsins sýndu að dökka hraunið er heitt og ríkt af orþópýroxeni á meðan eyjan er köld. Orþópýroxenið er silíkatsteind sem er algeng í basísku bergi.

Við eigum margt eftir ólært um öll þau heillandi eldfjöll sem prýða eldvirkasta hnött sólkerfisins. Þökkum bara fyrir að jörðin okkar sé ekki jafn eldvirk.

- Sævar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Sævar.

Heitir ekki gígurinn eftir Loka Laufeyjarsyni

Ágúst H Bjarnason, 12.7.2011 kl. 12:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband