Seinasta ferð geimferjunnar

s14_s125s035.jpgÍ dag, ef veður leyfir, fer Atlantis geimferjan í sína hinstu för út í geiminn. Förinni er heitið til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar og er tilgangurinn er að flytja þangað birgðir og búnað. Um borð í Atlantis eru fjórir geimfarar og hafa þeir ekki verið færri síðan í apríl 1983 þegar Challenger geimferjan sáluga flutti jafnmarga geimfara í sjötta leiðangri geimferjunnar.

Eftir tólf daga snýr Atlantis aftur til jarðar — sama dag og liðin verða 42 ár frá því að Neil Armstrong og Buzz Aldrin stigu fyrstir manna fæti á tunglið. Um leið lýkur rúmlega 30 ára sögu geimferjuáætlunarinnar. Alls fóru geimferjurnar 135 sinnum út í geiminn.

Hægt er að fylgjast með geimskotinu í beinni útsendingu á vefsíðu NASA. Ágætt er að byrja að fylgjast með um það bil tíu mínútum fyrir geimskot sem er áætlað 15:26 að íslenskum tíma, nema veðrið setji strik í reikninginn.

Skotglugginn er aðeins um 10 mínútna langur og miðar NASA yfirleitt við miðju hans. Skotglugginn veltur á staðsetningu geimstöðvarinnar yfir jörðinni en hún er aðeins 91 mínútu að hringsóla í kringum jörðina.

Þegar geimferjunni er skotið á loft situr hún á risastórum eldsneytistanki sem geymir fljótandi vetni og súrefni. Eldsneytinu er dælt yfir í hreyflana þrjá aftan á geimferjunni þar sem vetnið gengur í samband við súrefni og myndar vatnsgufu. Við það losnar mikil orka (jafnmikil og þarf til þess að skilja vetni og súrefni að með rafgreiningu eins og t.d. í vetnisstöðinni við Vesturlandsveg í Reykjavík).

Meginhluti orkunnar sem þarf til þess að koma geimferjunni á braut um jörðu kemur þó frá hvítu fasteldsneytisflaugunum. Eldsneytið í þeim er blanda af ammóníumperklórati, áli, kolefnisfjölliðum og fleiri efnum. Ekki er kveikt á þeim fyrr en búið er að ræða vélar geimferjunnar því þegar bruninn er farinn af stað verður ekki aftur snúið — eldsneytið í þeim brennur uns það klárast.

Gífurlega orku þarf til þess að koma geimferjunni á loft en samanlagt vegur hún og eldsneytistankarnir þrír um tvö þúsund tonn! Megnið af heildarþunganum er eldsneyti og eldsneytistankar því geimferjan sjálf er aðeins 79 tonn að þyngd. Hún er því léttari en fullvaxin steypireyður.

Hér undir er tímalína yfir það helsta sem gerist fyrir og eftir geimskot #:

  • T mínus 7 mínútur og 30 sekúndur - Landgönguhliðið fært frá geimferjunni. Venjulega er myndavél sem sýnir þegar þetta gerist. Landgönguhliðið er um 13 hæðir yfir jörðinni.
  • T mínus 5 mínútur og 15 sekúndur - Kveikt á flugritum geimferjunnar (svarti kassinn). Þulur tekur það yfirleitt fram í beinu útsendingunni.
  • T mínus 2 mínútur og 30 sekúndur - Lokið sem er eins kollhúfa ofan á appelsínugula eldsneytistanknum færist burt. Lokið sér um að dæla burt vetnisgufum sem fljótandi vetni í tanknum gefur frá sér.
  • T mínus 31 sekúnda - Hér eftir stjórna tölvur því sem gerist fram að geimskoti, með einni undantekningu: Menn ræsa aðalhreyfla geimferjunnar.
  • T mínus 16 sekúndur - 3,5 milljónir lítra af vatni er dælt út undir skotpallinn. Vatnið dregur úr hávaðanum og dempar hljóðbylgjurnar sem myndast þegar hreyflarnir eru ræstir. Hljóðbylgjurnar eru svo öflugar að þær gætu annars skemmt geimferjuna. „Reykurinn“ sem myndast þegar kviknar á eldflaugunum er því vatnsgufa.
  • T mínus 10 sekúndur - Kviknunarferli aðalhreyfla geimferjunnar hefst.
  • T mínus 8 sekúndur - Sex stórir „kveikjarar“ brenna vetni sem hefur lekið út úr hreyflunum.
  • T mínus 6,6 sekúndur - Á fjórðungi úr sekúndu eru allir þrír hreyflar geimferjunnar tendraðar og aflið keyrt upp 90%. Á þessum tímapunkti er enn hægt að hætta við geimskot ef eitthvað er að.
  • T mínus 0,1 sekúnda - Kveikt á hvítu fasteldsneytisflaugunum. Þetta ferli er ekki hægt að stöðva. Um leið og kviknar á fasteldsneytisflaugunum er ekki aftur snúið — þær brenna þangað til eldsneytið er uppurið. Í Challenger slysinu ár ið 1986 streymdi eldsneyti út um gúmmihring á fasteldsneytisflaug og bræddi gat á appelsínugula eldsneytistankinn með þeim afleiðingum að geimferjan sprakk og sjö geimfarar létu lífið.
  • T mínus 0 sekúndur - Geimskot!

Eftir geimskot

  • T plús 7 sekúndur - Geimferjan er komin upp fyrir skotpallinn og byrjar að velta sér þannig að stefnið er á hvolfi. Þetta er gert til þess að geimferjarn snúi rétt þegar hún kemur til geimstöðvarinnar.
  • T plús 60 sekúndur - „Throttle up“ — Stjórnstöð segir flugstjóranum að setja aflið á fullt.
  • T plús 2 mínútur og 5 sekúndur - Geimferjan er í um 45 km hæð þegar fasteldsneytisflaugarnar hafa lokið sér af. Sprengiboltar losa flaugarnar frá falla niður og lenda í Atlantshafinu þangað sem þær eru sóttar.
  • T plús 8 mínútur og 30 sekúndur Slökkt er á hreyflum geimferjunnar og appelsínuguli eldsneytistankurinn losnar frá. Tankurinn fellur smám saman aftur til jarðar og brennur upp í lofthjúpnum yfir Indlandshafi. Á braut um jörðina er geimferjan í um 300 km hæð og á um 26.000 km hraða á klukkustund. Í hönd fer ferðalag til geimstöðvarinnar.

126_008613.jpg

Stórkostlegt útsýni! Geimfarin Karen Nyberg í Alþjóðlegu geimstöðinni árið 2008.

Geimferjurnar eru flóknustu vélar sem smíðaðar hafa verið. Þær bera verkfræðikunnáttu mannkyns fagurt vitni.

Rekja má tilurð geimferjuáætlunarinnar aftur til þess tíma þegar tunglferðirnar stóðu sem hæst. Bandaríkin vildu draga úr kostnaði við geimferið — sem þó er lítill í samanburði við önnur útgjöld — með því að smíða geimferju sem hægt yrði að nota aftur og aftur. Hver geimferja var hönnuð til að endast í um áratug og fara um það bil 100 sinnum út í geiminn.

Áætlanirnar rættust því miður ekki. Þegar mest lét fóru geimferjurnar átta sinnum út í geiminn á einu ári. Kostnaður við geimferjurnar minnkaði heldur ekki. Þegar allt er tekið saman kostaði hver leiðangur geimferjunnar kostað í kringum 1 milljarð bandaríkjadala. Leiðangrarnir urðu 135 talsins, þar af heppnuðust 133.

Geimferjurnar voru notaðar til að flytja gervitungl út í geiminn, eins og Galíleó geimfarið sem fór til Júpíters og Chandra röntgengeimsjónaukann. En í mínum huga er mikilvægasta framlag geimferjanna viðhaldsleiðangrarnir til Hubblessjónaukans. Þeir hafa skipt sköpum fyrir hinn aldna geimsjónauka og veitt okkur nýja og stórfenglega sýn á alheiminn.

s28_5e009194.jpg

Hubblessjónaukinn og geimferjan Atlantis fyrir framan jörðina.

- Sævar


mbl.is Veður gæti tafið geimskot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vonandi er þetta bara síðasta ferð geimferjunnar en ekki hinsta för hennar. En það er sorglegt að fá þetta hikst í geimferðirnar, vonandi fáum við að sjá nýjar ferjur "fljótlega".

Björn (IP-tala skráð) 8.7.2011 kl. 14:51

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Ég breytti titlinum ;)

Já, vonandi fáum við eitthvað nýtt og meira spennandi á næstunni.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 8.7.2011 kl. 15:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband