Farvel Atlantis - þrjár flottar myndir úr síðustu ferð geimferjunniar

Nú er geimferjuáætlun Bandaríkjamanna lokið. Förinni var heitið til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar og er tilgangurinn er að flytja þangað birgðir og búnað. Um borð í Atlantis voru fjórir geimfarar og hafa þeir ekki verið færri síðan í apríl 1983 þegar Challenger geimferjan sáluga flutti jafnmarga geimfara í sjötta leiðangri geimferjunnar.

Í hverjum einasta leiðangri geimferjunnar eru teknar nokkrar stórkostlegar myndir af jörðinni. STS 135 leiðangurinn var þar engin undanteknin. Hér undir eru þrjár glæsilegar myndir úr seinustu ferð geimferjunnar.

shuttle135dockiss_lrg.jpg

Hér sést geimferjan Atlantis ofan Bahamaeyjar. 

571133main_iss028e017197_hires_full.jpg

Á þessari mynd sést Atlantis og „geimkrani“ geimferjunnar í miðjunni. Myndin er tekin um nótt þann 16. júlí síðastliðinn en þá var tunglið næstum fullt og lýsir því upp skýin. Ljósið efst er notað til að lýsa upp vinnusvæðin þegar er myrkur. Við brún jarðar sjást grænleit suðurljósin. Græna litinn má rekja til súrefnissameinda. Þegar agnir úr sólvindinum rekast á súrefnissameindirnar losar rafeind sem binst síðan aftur sameindinni og gefur við það frá sér grænt ljós. Þunni brúni boginn nær geimferjunni eru fínar agnir hátt í lofthjúpnum. 

570802main_iss028e016368_hires.jpg

Þessi magnaða mynd var tekin úr geimstöðinni. Á bak við sólarhlöðin og Atlantis sjást suðurljósin græn yfir brún jarðarinnar. Í bakgrunni eru fjölmörg fyrirbæri sem stjörnuáhugafólk á suðurhveli jarðar kannast við. Þarna sést geimþokan Kolapokinn, stjörnur í Vetrarbrautinni, stjörnumerkið Suðurkrossinn og rétt glittir í Kjalarþokuna og kúluþyrpinguna Omega Centauri.

Alveg magnað!

Hér eru svo fleiri myndir úr sögu geimferjanna af enskri fréttasíðu AlJazeera. 

Fyrir áhugasama myndavélanörda eru geimfararnarir með Nikon myndavélar í geimstöðinni.

Nú skulum við feta nýjar brautir og fara enn lengra út í geiminn. Gerum eitthvað nýtt og enn meira spennandi.

----

Nýtt á Stjörnufræðivefnum:

- Sævar


mbl.is Síðustu geimferjuferðinni lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En hvernig er þetta þá? Eru bandaríkjamenn búnir að ákveða að þeir ætli bara ekki að senda fleiri geimför í náinni framtíð eða?

Rúnar (IP-tala skráð) 21.7.2011 kl. 10:36

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Nei nei, stuttar ferðir út fyrir lofthjúp jarðar verður að mestu í höndum einkaaðila. Sjá hér fína umfjöllun hjá BBC.

Vonandi fær NASA fjármagn til að þróa nýja geimflaug sem kemur mönnum lengra út í geiminn.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 21.7.2011 kl. 10:45

3 identicon

Ég ætla rétt að vona að ekki verði milljörðum dælt í að einhverjir menn geti sprangað um á Mars. Yfirvöldum væri nær að huga að því sem miður fer í löskuðu lífríki Jarðar.

Jóhann (IP-tala skráð) 21.7.2011 kl. 19:54

4 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Af hverju gerum við ekki bara bæði? Það kostar ekki mikið að fara til Mars. Útgjöld til geimvísinda og vísinda almennt er brot af því sem varið er í aðra ómerkilegri hluti. Til dæmis kostaði geimferjuáætlunin örlítið meira á 30 árum en það kostaði að bjarga AIG tryggingafyrirtækinu í Bandaríkjunum. 

Marsleiðangur kostar ca. 1/7 af útgjöldum til Bandaríkjahers. Sem sagt, ferð til Mars kostar ca. 100 milljarða dollara (sem yrði dreift yfir nokkur ár) en útgjöld til varnarmála í Bandaríkjunum eru 700 milljarðar á hverju ári. 

Ég vona svo sannarlega að við verjum milljörðum dollara í eitthvað uppbyggilegt eins og ferð til Mars.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 21.7.2011 kl. 22:51

5 identicon

Að gera hvort tveggja? Þú mátt ekki misskilja mig. Ég er hlynntur rannsóknum.

En þú veist sem er, að við búum þegar yfir þeirri tækni að geta sent menn til tunglsins. Mönnuð Mars-ferð væri einungis staðfesting á því, nema sú ferð tæki einhverja 300+ daga. 

Næsta markverða áskorunin væri væntanlega að finna byggilega jarðlíka reikistjörnu, ekki satt?

Hyggur þú á landnám í geimnum?

Það segir einhverja sögu að þú rekir kostnaðinn við slíka plánetuvinninga við hernaðarútgjöld.

Þú gætir rétt eins spurt sjálfan þig, hversu vel sama upphæð myndi gagnast sveltandi fólki.

Jóhann (IP-tala skráð) 21.7.2011 kl. 23:23

6 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Já, ég tek undir að næsta markverða áskorunin sé að finna byggilega hnetti á borð við jörðina. En nú virðast bjánarnir í bandaríska þinginu ætla að koma í veg fyrir það með því að hætta við að veita fé til James Webb geimsjónaukans og tryggja þannig ákveðna stöðnun í vísindunum næstu áratugi.

Á Mars gætu verið svör við einni áhugaverðustu spurningu sem menn hafa spurt sig að í gegnum tíðina: Er líf annars staðar í geimnum? Besta aðferðin til að svara þeirri spurningu er að senda þangað menn eða mörg ómönnuð könnunarför. Ferð til Mars tæki ekki eitt ár heldur minnst þrjú ár fram og til baka. Við búum því miður ekki enn yfir tækninni til að senda menn þangað í svo langan tíma. Hana þarf að þróa og sú tækniþróun mun án efa kosta mikið (en þó lítið í stærra samhengi) og vera mannkyninu til góðs.

Ég sé enga ástæðu til að hyggja á landnám í geimnum strax. Mér finnst þessi hugmynd að koma upp bækistöð á tunglinu vond þótt hún sé dálítið rómantísk. Hún er dýr og þeim peningum væri betur varið að mínu mati í ómannaða leiðangra. Ef ég fengi að velja milli þess að send yrðu 10 ómönnuð könnunarför til Mars eða annarra hnatta í sólkerfinu í stað eins mannaðs Marsleiðangrar, þá veldi ég tíu ómannaða leiðangra. Þeir yrðu líka talsvert ódýrari. En til lengri tíma litið finnst mér að mannkynið eigi að færa út kvíarnar og skoða almennilega þennan alheim sem við búum í.

Ég held líka að það veiti fólki miku meiri innblástur að sjá fólk spranga um á tunglinu eða Mars og geta af sér nýja kynslóð vísindamanna sem hafa háleita drauma. Okkur vantar eitthvað svoleiðis til að vinna okkur fram úr þeim vandamálum sem við höfum skapað okkur sjálf. Það hefur verið sagt að fyrir hvern dollara sem varið var til Apollo tunglferðanna hafi 10 til 20 komið til baka. Það er ágætis ávöxtun. Það er ekki hægt að segja það sama um geimferjuáætlunina. Mér finnst hún og geimstöðin hafa verið mistök.

Ég myndi svo sannarlega vilja sjá peningum varið til að hjálpa sveltandi fólki og bæta líf fólks á jörðinni. En mér finnst óþarfi að draga úr útgjöldum til vísinda til þess á þeim forsendum að þetta sé svo dýrt, þegar það er það alls ekki. Peningarnir fyrir það eru fáanlegir annars staðar.

Mín tvö sent eins og sagt er 

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 22.7.2011 kl. 11:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband