28.7.2011 | 12:46
Mikilvægur áfangi fyrir ALMA: 16 loftnet á Chajnantor sléttunni - Fyrstu mælingar í undirbúningi
Á Chajnantor sléttunni, hátt í Andesfjöllunum í Chile, er óðum að komast mynd á Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA). Loftnetin eru nú orðin 16 talsins og þótt það hljómi eins og hver önnur tala þýðir þetta að nú geta fyrstu vísindalegu mælingarnar hafist. Sextánda loftnetið er því mikilvægur áfangi. Loftnetinu var komið fyrir í starfsstöð sjónaukans sem er í 5000 metra hæð yfir sjávarmáli á Chajnantor sléttunni þann 27. júlí 2011 eftir samsetningu og ítarlegar prófanir í stjórnstöðinni sem er nokkru neðar. Fljótlega munu stjörnufræðingar hefja rannsóknir með ALMA.
Fyrstu mælingar eru fyrirhugaðar í lok september 2011. Þótt ALMA verði enn í smíðum er hann þegar orðinn betri en nokkur annar sambærilegur sjónauki.
Þegar smíði ALMA lýkur í kringum árið 2013 verða loftnetin 66 talsins. Þau verða öll látin starfa saman sem ein heild og mynda stóran sjónauka sem mælir millímetra og hálfsmillímetra bylgjulengdir ljóss. ALMA mun hjálpa stjörnufræðingum að rannsaka uppruna sólkerfa, stjarna og jafnvel alheimsins sjálfs með því að rannsaka kalt gas og ryk í vetrarbrautinni okkar og utan hennar, sem og eftirgeislun Miklahvells.
ALMA er samstarfsverkefni Evrópu, Norður Ameríku og austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO hefur umsjón með evrópska hluta verkefnisins.
Mynd: ALMA (ESO/NAOJ/NRAO)
Tengt efni
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.