1.8.2011 | 20:53
Nýjar og glæsilegar myndir birtar af smástirninu Vestu
Ég fylgdist með því í beinni útsendingu þegar Dawn geimfari NASA var skotið á loft frá Canaveralhöfða í Flórída fyrir fjórum árum. Ég gat ekki beðið eftir því að sjá fyrstu myndir geimfarsins af áfangastaðnum: Smástirninu Vestu. Eftir næstum 2,8 milljarða km ferðalag er geimfarið loks komið á braut um smástirnið og rannsóknir hafnar.
Í dag birtu vísindamenn fyrstu nærmyndirnar af Vestu og eru þær hreint stórkostlegar.
Smelltu til að stækka
Þessi mynd var tekin 24. júlí 2011 úr 5.200 km hæð yfir smástirninu. Hér sést gígótt yfirborð smástirnisins sem reyndar er engin smásmíð: 530 km í þvermál eða svo. Við horfum undir suðurhvel Vestu.
Á yfirborðinu eru miklar sprungur sem ef til vill urðu til við stóra áreksturinn á suðurpólnum. Við áreksturinn hefur hnötturinn hreinlega gengið saman eins og gormur. Sprungurnar sjást betur á þessu myndskeiði og á myndinni hér undir:
Næst höfum við mynd af röð þriggja gíga sem minna óneitanlega á snjókarl! Hér horfum við á norðurhvel Vestu. Gígbarmarnir eru skarpir og hafa greinilega skriður fallið niður hlíðarnar.
Smelltu til að stækka
Urðu gígarnir til á sama tíma?
Smelltu til að stækka
Dökk og ljós svæði í kringum gígana eru til marks um mismunandi efni. Við höfum séð sambærileg dökk svæði á tunglinu og Merkúríusi en eigum eftir að finna út úr hverju þessi eru.
Vesta er af mörgum stjörnufræðingum álitin misheppnuð reikistjarna. Yfirborð hennar er úr basalti eins og meginhluti Íslands. Það segir okkur að yfirborðið var eitt sinn bráðið og að hnötturinn er líklega lagskiptur eins og jörðin og bergreikistjörnurnar. Fjölmargir loftsteinar eru taldir eiga rætur að rekja til Vestu og hefur Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness nýverið eignast einn slíkan loftstein. Hann verður til sýnis á félagsfundi eftir áramót.
Dawn er alþjóðlegur leiðangur. Myndavélin er þýsk, litrófsritinn ítalskur en nifteinda- og gammageislanem og geimfarið sjálft er bandarískt. Dawn er fyrsta geimfarið sem kemst á braut um smástirni í smástirnabeltinu milli Mars og Júpíters. Dawn mun verja einu ári í að rannsaka Vestu og halda síðan í þriggja ára ferðalag til stærsta hnattarins í beltinu, dvergreikistjörnunnar Ceresar.
Ítarefni á Stjörnufræðivefnum
- Sævar
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.