Fimm gígapixla mynd af næturhimninum

risinger_all-sky_zoom_1101677.jpgStjörnuljósmyndun er eitt erfiðasta form ljósmyndunar. Hún krefst gríðarlegrar þolinmæði, mikillar vinnu en ekki síst mjög vandaðs búnaðar (sem er þar af leiðandi dýr). Það er af óskaplega mörgu að huga ef ná á góðum myndum. Veðrið verður að leika með manni og nauðsynlegt er að vera lunkinn í myndvinnslu.

Sem betur fer eru til áhugamenn sem einhenda sér í að gera eitthvað stórkostlegt. Einn þeirra er bandaríski stjörnuáhugamaðurinn og markaðsfræðingurinn Nick Risinger. Risinger tók sér ótrúlegt verkefni fyrir hendur: Að taka ljósmynd af allri himinhvelfingunni eins og hún leggur sig. Þannig vildi hann sýna okkur hvað himinninn er mikilfenglegur. Og það tókst honum svo sannarlega.

Á einu ári tók Risinger 37.440 ljósmyndir frá stöðum í Norður Ameríku og Suður Afríku. Síðan púslaði hann myndunum saman og útbjó eina 5 gígapixla ljósmynd. Já, 5 gígapixla! Það eru 5000 megapixlar.

Verkefnið reyndi heldur betur á Risinger. Hann sagði upp starfi sínu vegna þess en með stuðningi bróður síns og föðurs gat hann ferðast heimshorna á milli með dýran ljósmyndabúnað og unnið að verkefninu af heilum hug.

Búnaður Risingers var ekki af verri endanum. Hann samanstóð af sex einlita CCD myndavélum með 85 mm f/2,8 linsum. Allt heila klabbið festi hann á Takahashi EM-11 Temma 2 sjónaukastæði (mjög vandað) sem fylgdi eftir snúningi jarðar. Risingar skipti síðan himninum upp í 624 svæði, hvert aðeins 12° á breidd.

Þetta er ekki fyrsta víðmyndin sem gerð er af næturhimninum en ein sú dýpsta sem áhugamaður hefur gert. Myndin er gagnvirk og hægt er að þysja inn að glóandi stjörnuverksmiðjum, nýmynduðum stjörnuþyrpingum og kafa inn í ryksvæði Vetrarbrautarinnar.

Hægt er að skoða myndirnar hér á Photopic Sky Survey.

Á Alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar 2009 stóð European Southern Observatory að samskonar verkefni: GigaGalaxy Zoom. GigaGalaxy Zoom sem sýnir allan himinninn eins og hann birtist okkur með berum augum frá einni dimmustu eyðimörk jarðar á þremur risastórum ljósmyndum. Hægt er að skoða myndirnar þrjár hér:

- Sævar

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Þetta er alveg glæsilegt hjá honum. 8)

Halldór Björgvin Jóhannsson, 2.8.2011 kl. 13:08

2 identicon

Ótrúlegt framtak alveg hreint. Þetta hefur verið mikil þolinmæðisvinna en honum tókst þó að ljúka við verkefnið.

Sverrir Gudmundsson (IP-tala skráð) 3.8.2011 kl. 12:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband