Júpíter-kannanum Juno skotið á loft í dag

pia13087_ip.jpgÍ dag skýtur NASA á loft nýju ómönnuðu könnunarfari til Júpíters, stærstu reikistjörnu sólkerfisins. Geimfarið heitir Juno og er hið fyrsta sem notar sólarorku í stað kjarnorku svo langt frá sólinni.

Geimfarið er nefnt eftir rómversku gyðjunni Juno sem var dóttir Satúrnusar, systir og eiginkona Júpíters, móðir Mars og Vúlkans og verndargyðja kvenna í Róm. Sagan segir að hinn vífni Júpíter hafi reynt að dylja misgjörðir sínar með skýjum. Af Ólympusfjalli gat kona hans skyggnst í gegnum skýin og komist að raun um framhjáhald eiginmanns síns. Væri geimfarið íslenskt væri sennilega Frigg að fara og heimsækja Óðinn.

Segja má geimfarið muni líkja eftir eiginkonu Júpíters. Það á nefnilega að skyggnast inn í skýjahuluna og kanna þannig innviði, lofthjúp og segulsvið Júpíters. Um borð eru átta tæki sem mæla munu þyngdarsvið gasrisans, mæla magn vatns og ammóníaks í skýjunum, kortleggja geysiöflugt segulsvið reikistjörnunnar og fylgjast með kröftugum segulljósum. Allt þetta á að hjálpa okkur að komast að skilja hvernig Júpíter lítur út að innan og hvernig hann og aðrir gashnettir verða til og þróast. Það hjálpar okkur svo að skilja myndun sólkerfisins.

Juno er stórt og þungt geimfar. Ekki er til nægilega öflug eldflaug til að koma því beina leið til Júpíters. Eftir geimskot fer Juno fyrst á sporöskjulaga braut um sólina. Í október 2013 þýtur það framhjá jörðinni og stelur hverfiþunga til að auka hraðann svo það drífi til Júpíters. Fyrir vikið mun hægja eitthvað örlítið á snúningi jarðar en enginn mun taka eftir því.

577171main_lego20110803-full.jpgÁrið 2016, eftir fimm ára og 2,8 milljarða km langt ferðalag, kemst Juno á sporöskjulaga braut um póla Júpíters. Það tekur geimfarið 11 daga að hringsóla um reikistjörnuna og því mun það fara 33 sinnum í kringum Júpíter á ári.

Um borð er skjöldur til heiðurs ítalska stjörnufræðingnum Galíleó Galílei þar sem minnst er uppgötvunar hans á fjórum tunglum Júpíters fyrir rúmum 400 árum sem gerbreytti heimsmynd okkar. Um borð eru líka þrjár LEGO fígúrur af Galíleó, rómverska guðinum Júpíter og konu hans, gyðjunni Juno. Tilgangurinn með þeim er að vekja athygli og áhuga barna á leiðangrinum og þar af leiðandi á vísindum, tækni og stærðfræði.

Gangi allt að óskum fer geimfarið á loft milli klukkan 15:34 og 16:43 að íslenskum tíma. Hægt er að fylgjast með geimskotinu á vef NASA.

Ítarefni

- Sævar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband