31.8.2011 | 07:47
Heimili okkar í geimnum úr 10 milljón km fjarlægð
Geimfarið Juno á langa leið fyrir höndum til stærstu reikistjörnu sólkerfisins, gasrisans Júpíters. Því var skotið á loft 5. ágúst síðastliðinn en þann 26. ágúst var myndavél geimfarsins beint í átt til jarðar og tunglsins:
Jörðin og tunglið úr 10 milljón km fjarlægð. Mynd: NASA/JPL/MSSS
Tilgangurinn var ekki aðeins að taka fallega mynd af jörðinni og tunglinu, heldur var tækifærið notað til að prófa mælitæki og ganga úr skugga um að allt væri eðlilegt.
Juno var aðeins um einn sólarhring að sigla flóann milli jarðar og tungls en verður heil fimm ár að ljúka leið sinni til Júpíters. Árið 2016 fer geimfarið á spöskjulaga pólbraut um Júpíter. Það gerir stjörnufræðingum kleift að rannsaka uppbyggingu innviða Júpíters, dýpri lög lofthjúpsins og segulhvolfið.
Geimfarið er nefnt eftir rómversku gyðjunni Juno sem var dóttir Satúrnusar, systir og eiginkona Júpíters, móðir Mars og Vúlkans og verndargyðja kvenna í Róm. Sagan segir að hinn vífni Júpíter hafi reynt að dylja misgjörðir sínar með skýjum. Af Ólympusfjalli gat kona hans skyggnst í gegnum skýin og komist að raun um framhjáhald eiginmanns síns. Segja má geimfarið muni líkja eftir eiginkonu Júpíter með því að skyggnast inn í lofthjúp reikistjörnunnar.
---
Stjörnufræði.is
Við ákváðum að skipta um lén á Stjörnufræðivefnum. Nú vísar stjornuskodun.is alltaf á stjornufraedi.is. Okkur þykir stjornufraedi.is meira lýsandi fyrir efnistök vefsins. Eftirfarandi slóðir eru því virkar
Minnum á mynd vikunnar og nýjar fréttir á vefnum alla miðvikudaga (tvær nýjar í dag!)- Sævar
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:31 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.