13.9.2011 | 10:38
Merkur reikistjörnufundur
Fréttin sem hér er vísað til er fín en mig langar til að benda áhugasömum á upphaflegu fréttina. Guardian byggir nefnilega sína grein á frétt sem kom beint frá European Southern Observatory (ESO) en það eru samtökin sem eiga sjónaukann og mælitækið sem þessi reikistjarna fannst með. Þessi frétt birtist á íslensku á sama tíma og hún birtist á ensku og öðrum tungumálum á heimasíðu samtakanna (smelltu á íslenska fánann). ESO eru fremstu stjarnvísindasamtök heims og er undirritaður tengiliður þeirra á Íslandi.
Reikistjarnan sem hér um ræðir fannst með HARPS mælitækinu á 3,6 metra sjónauka ESO í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Hún er svokölluð risajörð, þ.e. bergreikistjarna sem er milli 1 til 10 sinnum massameiri en jörðin, en í gær var tilkynnt að fundist hefðu að minnsta kosti 16 slíkar reikistjörnur. HD 85512b [1] sker sig þó úr: Hún er við lífbelti sinnar stjörnu, þess svæðis í sólkerfi þar sem hitastigið er passlegt svo að vatn getur verið á fljótandi formi og líf eins og við þekkjum það þrifist. Það gerir þessa tilteknu reikistjörnu mjög áhugaverða.
Þetta er ekki eina reikistjarnan í lífbelti sem við vitum um. Sama mælitæki fann reikistjörnu í lífbelti stjörnunnar Gliese 581 fyrir fáeinum árum.
Báðar eru þessar reikistjörnur við brún lífbelta sinna sólkerfa. Gliese 581d er við ytri brúnina (svipað og Mars í sólkerfinu okkar) svo þar er líklega kalt nema reikistjarnan sú hafi vænan skammt af gróðurhúsaáhrifum sem hækki hitastigið. HD 85512b er við innri brúnina (svipað og Venus í sólkerfinu okkar) svo þar er líklega frekar hlýtt. Skýringarmyndin hér undir sýnir lífbelti sólkerfanna tveggja og okkar sólkerfis.
Þú getur fræðst meira um reikistjörnur utan okkar sólkerfis fjarreikistjörnur á Stjörnufræðivefnum auk vangavelta um líf utan jarðar:
Að lokum, vefvarp sem segir frá uppgötvuninni:
[1] Nafnið HD 85512 er skráarheiti stjörnunnar. Stjarnan er númer 85512 í Henry Draper skránni. Bókstafurinn b vísar til reikistjörnunnar.
- Sævar Helgi Bragason
Ný pláneta eins og gufubað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér fyrir, mig langaði mikið til að vita meira.
Ég á lítinn gutta sem er allur á bólakafi í grjóti, ösk, gjósku, sólkerfum og stjörnum. Má ég spyrja hvort þú vitir um eitthvert námskeið fyrir litla menn með þetta áhugamál ég er nefnilega að verða REN í fræðunum?
Takk aftur,
M
Matthildur Jóhannsdóttir, 14.9.2011 kl. 09:58
Matthildur ertu að leita að námskeiði í stjörnuskoðun fyrir börn?
Þá myndi ég skoða hér: http://www.astro.is/namskeid/krakka
Andrea (IP-tala skráð) 14.9.2011 kl. 10:20
Já, Matthildur, við erum með námskeið í samvinnu við Stjörnuskoðunarfélagið sem Andrea bendir á. Næsta námskeið verður reyndar ekki fyrr en eftir áramót en þér er velkomið að senda skeyti á Stjörnuskoðunarfélagið og skrá þig á póstlista. Á póstlistann sendum við upplýsingar um námskeiðið þegar nær dregur.
- Sævar
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 14.9.2011 kl. 11:31
Takk kærlega ég skrái guttan.
Matthildur Jóhannsdóttir, 14.9.2011 kl. 13:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.