13.9.2011 | 20:22
Tunglakvintett
Yfir 60 tungl ganga um gasrisann Satúrnus, næst stærstu reikistjörnu sólkerfisins. Eitt er reyndar gervitungl, sendiherra jarðarbúa, Cassini geimfarið sem hefur hringsólað innan um hringana og tunglin frá árinu 2004.
Útsýnið sem Cassini nýtur er stórkostlegt og fjölmörg Kodak-moment sem koma upp. Á þessari mynd sem Cassini tók 29. júlí 2011 er eitt slíkt augnablik: Tunglakvintett við hringa Satúrnusar.
Mynd: NASA/JPL-Caltech/SSI
Lengst til vinstri er tunglið Janus (179 km í þvermál) sem er eiginlega bara stór íshroði. Milli A-hringsins og þunna F-hringsins er tunglið Pandóra (81 km í þvermál) en rétt fyrir ofan miðja mynd er stórmerka ístunglið Enkeladus (504 km í þvermál) en út úr því standa goshverir sem búa til einn af hringunum. Næst stærsta tungl Satúrnusar, Rhea (1528 km í þvermál), er klofið í tvennt af hægri brún myndarinnar. Við hlið Rheu er svo helstirnið sjálft, tunglið Mímas (393 km í þvermál).
Tunglin eru mjög misfjarri Cassini á myndinni en svo misstór að þau sýnast þétt saman. Rhea er næst Cassini, um það bil 1,1 milljón km í burtu en Enkeladus lengst frá, um það bil 1,8 milljón km í burtu.
Af þessum tunglakvintett getur þú aðeins séð Rheu í gegnum lítinn stjörnusjónauka. Satúrnus sjálfur liggur reyndar ekki vel við athugun þessar vikurnar en síðar í vetur verður hann morgunstjarna skammt frá stjörnunni Spíku (Axinu) í stjörnumerkinu Meyjunni. Þá er vel þess virði að taka daginn snemma og skoða Satúrnus í gegnum stjörnusjónauka. Ég lofa því að það er eitt það stórkostlegasta sem hægt er að sjá í náttúrunni!
- Sævar Helgi
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.