NASA kynnir nýja eldflaug

587939main_block_1_launching_high_2_946-710_1109347.jpgÍ dag tilkynnti NASA um smíði nýrrar eldflaugar fyrir þungaflutninga út í geiminn. Nýja flaugin er þeim kosti gædd að geta ferðast út fyrir lága jarðbraut (meira en 600 km út fyrir jörðina), nokkuð sem geimferjan sáluga gat ekki en Satúrnus 5 eldflaugin sem flutti menn til tunglsins gat gert. Fyrir vikið opnast nú þær dyr að geta komið mönnum á ný til tunglsins og enn lengra, jafnvel til jarðnándarsmástirna og Mars í framtíðinni.

Nýja eldflaugin kallast SLS eða Space Launch System. Hún er hönnuð til þess að bera Orion Multi-Purpose áhafnarfarið, sem hannað var í Constellation verkefninu skammlífa sem Bush setti á laggirnar en Obama hætti við, út í geiminn. Flaugin er líka hugsuð til annarra þungaflutninga út í geiminn og ferja menn til geimstöðvarinnar. Fyrsta tilraunaflug hennar er áætlað árið 2017.

Samkvæmt fréttatilkynningu NASA var þessi hönnun valin af hagkvæmniástæðum. Nú þegar hefur töluverðum fjármunum verið varið í hönnun ýmissa hluta hennar í Constellations verkefninu og þeim peningum hefur því ekki varið til einskis og starfsfólk NASA víða um Bandaríkin heldur vinnunni.

Allt tal um ferð til Mars eru orðin tóm á meðan NASA fær ekki meira fjármagn frá bandaríska ríkinu. Þessi eldflaug mun ekki flytja menn lengra en til geimstöðvarinnar nema meira fé komi til. Þvert á móti er rætt um töluverðan niðurskurð hjá þessari litlu fjársveltu ríkisstofnun (útgjöld til NASA nema um 0,5% af heildarfjárlögum bandaríska ríkisins). Hætta er á að James Webb geimsjónaukinn, sem mun koma til með bylta stjarnvísindum á svipaðan hátt og Hubble hefur bylt stjörnufræðinni, fari aldrei á loft nái tillögur fulltrúadeildar Bandaríkjaþings fram að ganga en samkvæmt þeim á að hætta við geimsjónaukann. Persónulega myndi ég heldur vilja sjá sjónaukanum bjargað á kostnað mannaðra geimferða miðað við það sem framundan er.

Hvað um það, vonandi er nýr kafli í geimkönnunarsögu mannkyns að hefjast. Ég vona bara heitt og innilega að framtíðin sé björt þótt útlitið sé harla dökkt.

- Sævar Helgi 


mbl.is NASA vill til Mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Tek undir þetta með þér. Við eigum að hugsa langt fram í tímann og og til langra ferðalaga.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 14.9.2011 kl. 16:33

2 identicon

Er ekki einhver tímaskekkja í þessu? Bandaríkjamenn geta ekki komið sínum mönnum upp í geimstöðina nema með hjálp Rússa. Það verða Rússar og sennilega með aðstoð Kínverja sem framkvæma þetta verk og þá væntanlega með hjálp USA, vegna þeirrar þekkingar sem þeir hafa aflað sér í gegn um árin. Hitt er annað mál að Rússar vita örugglega meira um geimferðir og - ferjur en Ameríkanar, þegar upp er staðið. Það er ómældur "censur" í vestrænum fjölmiðlum, þegar Rússnesk tækni er annarsvegar, því miður. Samvinna þessara þriggja ríkja er nauðsýnleg til að svona verkefni geti heppnast. Þetta er engin hvalaskoðunarferð!

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 14.9.2011 kl. 23:43

3 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Það er líklega alveg rétt, ferð til Mars verður ekki farin nema í samvinnu margra ríkja. Þess vegna skiptir þessi nýja eldflaug engu máli í sambandi við mannaðar Marsferðir.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 15.9.2011 kl. 02:33

4 identicon

Helvíti spennandi!

Jón Ferdínand (IP-tala skráð) 15.9.2011 kl. 14:57

5 Smámynd: GunniS

þetta fær mann til að hugsa um frásögn sem ég las eftir Edgar cayce sem var lækningamiðill hér einu sinni, hann kom inn á margt eins og Atlantis og hann lýsti sumum tækniundrum sem Atlantis notaði eins og vélar sem notuðu kvikasilfur eða mercury, eins og finnst í hitamælum. hann sagði að þetta hefðu verið feikna öflugar vélar.

ég hef oft velt þessu fyrir mér, og í raun er kvikasilfur spes málur þar sem hann bregst mjög kröftuglega við hitabreytingum, og hann er fjótandi. svo það væri alveg hægt að búa til hringrás þar sem kvikasilfur er hitað upp, því beint í hringrás og svo búin til túrbína sem notar kraftinn sem myndast. eða frekar, nýtir fljótandi eiginleika kvikasilfur, eins og það væri vatn.

GunniS, 17.9.2011 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband