Stórmerk uppgötvun

587851main_kepler16_planetpov_art-3x4_946-710.jpgÞær hafa verið þó nokkrar fréttirnar sem birtst hafa í vikunni af áður óþekktum reikistjörnum utan okkar sólkerfis. Ástæðan er sú að nú fer fram ráðstefna um jaðarsólkerfi í Wyoming í Bandaríkjunum þar sem 350 sérfræðingar bera saman bækur sínar og kynna nýjar uppgötvanir.

Á mánudag var tilkynnt að 50 reikistjörnur hefðu fundist með HARPS mælitækinu á sjónauka í Chile. Er það metfjöldi sem finnst í einu en þar af eru 16 risajarðir, þ.e. bergreikistjörnur á bilinu 1 til 10 sinnum massameiri en jörðin. Af þeim er ein þeirra, HD 81552, er við jaðar lífbeltisins í sínu sólkerfis sem þýðir að þar er möguleiki á lífi, þótt fjarlægur sé ef til vill. Þessi reikistjarna komst í fréttirnar þar sem álitið er að aðstæður þar líkist helst gufubaði.

Nýja reikistjarnan sem nú er tilkynnt um, Kepler-16b, er stórmerkileg. Hún er á braut um tvístirni eins og Tatooine úr Stjörnustríði, nokkuð sem talið var harla ólíklegt en samt mögulegt. Eins og fram kemur í þessari prýðilegu frétt mbl.is er Kepler-16b gasrisi á stærð við Satúrnus og köld þar sem báðar sólirnar eru minni, daufari og kaldari en sólin okkar.

301285_2275762646413_1019104189_2534558_1068143467_n.jpg

Logi geimgengill spígsporar um reikistjörnuna Tatooine. Nú vitum við um reikistjörnu sem hefur svona sólsetur. Skáldskapur er orðinn að staðreynd!  

Kepler-16b fannst með leitaraðferð sem kallast þvergönguaðferðin. Keplerssjónaukinn starir á um 156.000 stjörnur á himinhvelfingunni milli stjörnumerkjanna Svansins og Hörpunnar. Um borð í sjónaukanum er mjög næmur ljósmælir sem mælir birtubreytingar sem verða á stjörnu ef reikistjarna gengur þvert fyrir stjörnuna frá jörðu séð. Við þvergönguna dregur reikistjarnan tímabundið úr birtu stjörnunnar.

Þvergöngur standa jafnan stutt yfir, oftast í fáeinar klukkustundir en ferlið verður að endurtaka sig, valda alltaf sömu birtuminnknun og standa jafnlengi yfir í hvert sinn svo hægt sé að staðfesta tilvist reikistjörnunnar. Hægt er að reikna út stærð reikistjarnanna út frá birtuminnkuninni en umferðartímann, og þar af leiðandi fjarlægðina milli stjörnunnar og reikistjörnunnar er hægt að reikna út frá tímanum sem líður milli hverrar þvergöngu.

Geimverur útbúnar samskonar mælitæki og Keplerssjónaukann gætu fundið jörðina og aðrar reikistjörnur okkar sólkerfis á þennan hátt. Þær þyrftu þó að vera í sjónlínu við sólkerfið okkar.

Í dag þekkjum við meira en 650 fjarreikistjörnur. Mælitækin verða sífellt betri og því finnast fleiri og fleiri. Það er aðeins tímaspursmál hvenær önnur jörð kemur í leitirnar!

Nánari upplýsingar
- Sævar Helgi Bragason

mbl.is Fundu plánetu með tvær sólir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

snilldargrein. Takk fyrir þetta :)

. (IP-tala skráð) 15.9.2011 kl. 22:40

2 identicon

Frábært! Go Science

Jón Ferdínand (IP-tala skráð) 16.9.2011 kl. 12:44

3 identicon

Mjög fróðlegt og að sjálfsögðu snilld en það kemur upp ein spurning. það er hægt að reikna út stærð plánetunar út frá birtuminnkuninni en þá þarf að vita stærð sólarinnar ekki satt, hvernig átta menn sig á stærð sólar í þessari gríðarlegu fjarlægð. Vísindin eru ótrúleg og fyrir mann eins og mig er erfitt að átta sig á þeim fjölmörgu aðferðum sem vísindamen nota til að átta sig á hinum ýmsu hlutum eins og þessu og efnissamsetningu og annað sem menn vita eftir ótrúlegustu útreikningum en hafa ekki getað snert á :)  oft hefur eftirá verið sannað ýmsar áður útreiknaðar tilgátur með ýmsum geimförum með mælibúnað og virðist sem menn séu ótrúlega nákvæmir með þessar reiknisaðferðir

Siggi Adolfs (IP-tala skráð) 17.9.2011 kl. 14:46

4 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Já, vísindin eru alveg mögnuð!

Jú, það er alveg rétt hjá þér, til þess að reikna út stærð reikistjörnunnar þarf að vita stærð stjörnunnar. Það er í sjálfu sér frekar einfalt: Ef þú veist ljósafl hennar (mælt út frá birtu á himninum) og hitastig getur þú notað lögmál eðlisfræðinnar til að reikna út stærðina. Eðlisfræðilögmálin hafa verið staðfest með tilraunum og því vitum við að þau gilda. Hitastigið er hægt að vita einfaldlega með því að skoða litinn á stjörnunni. Heit stjarna er blá eða hvítleit á meðan köld stjarna er rauðleit. Það er líka hægt að gera hitastigsmælingar með því að skoða litrófið og það er allt saman búið að staðfesta í tilraunastofu og með lögmálum skammtafræðinnar.

Hér er útskýrt nokkurn veginn hvernig stærðir stjarna eru fundnar út

http://www.stjornufraedi.is/alheimurinn/stjornur#staerdir_stjarna

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 17.9.2011 kl. 19:57

5 identicon

Takk fyrir þetta og þá er allur pakkin kominn um "hvernig" !! :)

Siggi Adolfs (IP-tala skráð) 17.9.2011 kl. 22:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband