4.10.2011 | 10:24
Ein merkasta uppgötvun sögunnar
Niðurstaða Nóbelsnefndarinnar kemur ekki á óvart. Aðeins tímaspursmál var hvenær þessir þrír fengju verðlaunin enda gerðu þeir stórmerka uppgötvun á alheiminum: Alheimurinn er að þenjast út með sívaxandi hraða.
Árið 1929 uppgötvaði Edwin Hubble að alheimurinn væri að þenjast út og útþensluhraðinn yxi eftir því sem fjarlægðin til fyrirbærisins væri meiri. Hann uppgötvaði að útþensluhraðinn væri í réttu hlutfalli við fjarlægðina og fylgdi lögmáli sem við hann er kennt í dag.
Laust fyrir aldamótin síðustu byltu heimsmyndinni tveir rannsóknarhópar undir forystu Adams Riess og Brians Schmidt og Saul Perlmutter. Þá var viðtekið að útþensluhraði alheims færi minnkandi, að útþenslan væri stöðugt að hægja á sér. Að lokum drægist alheimurinn aftur saman og endaði í einhvers konar Miklahruni.
Þetta ætluðu þeir að staðfesta með því að mæla útþensluna. Þeir beindu tækjum sínum, meðal annars 3,6 metra og NTT sjónaukum og VLT sjónauka ESO í Chile, að sprengistjörnum af gerð Ia (fjölluðum aðeins um þær í eldri bloggfærslu) en þær má nota sem staðalkerti, fyrirbæri með þekkta reyndarbirtu. Þannig má mæla sýndarbirtuna og ákvarða fjarlægðina. Niðurstöður þeirra voru afgerandi. Hraði útþenslunnar eykst í sífellu.
Enginn veit hvað það er sem veldur sívaxandi útþensluhraða alheims. Flestir eru á því að einhvers konar hulduorka eigi þar sök á máli en enginn veit hvað sú orka er. Við vitum aðeins að hún veldur því að alheimurinn þenst sífellt meir út. Þeir eða þau sem átta sig á eðli hulduorkunnar munu fá Nóbelsverðlaun.
Þessi uppgötvun Riess, Schmidt og Perlmutters hefur mikil áhrif á heimsmynd okkar. Hún gerir okkur líka í hugarlund hvernig alheimurinn á eftir að enda ævi sína. Samkvæmt henni er framtíðin svört.
Nánar er hægt að lesa um allt þetta á Stjörnufræðivefnum:
---
Mig langar í leiðinni að lýsa yfir miklum vonbrigðum með umfjöllun fjölmiðla um Nóbelsverðlaunin. Í Morgunblaðinu í dag var ein lítil frétt og aðalatriðið var að einn hafanna hefði látist. Það er vissulega frétt en ekki er nokkur metnaður lagður í að útskýra fyrir fólki fyrir hvað verðlaunin eru veitt og hvaða áhrif uppgötvanir þessara vísindamanna hafa haft. Það er ekki einu sinni gerð tilraun til þess.
Ég er nokkuð viss um að sama verður uppi á teningnum með þessi verðlaun og efnafræðiverðlaunin. Hins vegar mun bókmenntaverðlaunahafinn fá að minnsta kosti heilsíðuumfjöllun í Sunnudagsmogganum og að sjálfsögðu Friðarverðlaunahafinn líka.
- Sævar Helgi
Verðlauna geimrannsóknir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:44 | Facebook
Athugasemdir
Alveg áreiðanlega rétt með bókmenntaumfjöllunina. Það gildir líka um útvarpsstöðvarnar.
Sigurður Þór Guðjónsson, 4.10.2011 kl. 13:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.