Um furðuljós á himni sem sáust í gær

Í gær fékk ég símhringingu frá blaðamanni Vísis.is vegna ljóss sem fólk á Dalvík sá bregða fyrir á himni. Lýsingin sem hann gaf mér átti mjög vel við loftsteinahrap en ég hefði þurft að vita hvort ljósið var snöggt eða leið hægt yfir og ekki hefði verið verra að fá tímasetninguna. Ef ljósið fór mjög hratt yfir en entist í 5 sekúndur var um loftsteinahrap eða ræða en ef það leið hægt yfir var hér Iridium blossi á ferð. Í gærkvöld voru nefnilega tveir bjartir Iridum blossar sýnilegir á himni og báðir urðu bjartari en Venus getur orðið á himninum og bjartari en Júpíter, sem er bjartasta stjarnan á himninum þessa dagana.

Ég sá svo rétt í þessu aðra frétt á Vísir.is þar fleiri ljósum er lýst. Í fréttinni segir:

Ljósið virtist vera rétt yfir Akrafjalli og skiptist í þrjú skær ljós, sem voru á hreyfingu og sást þetta greinilega í rúmlega hálfa mínútu.

Ef ljósin voru hátt á lofti var um þrjú gervitungl að ræða. Það er ekki óalgeng sjón hjá þeim sem horfa til himins reglulega. Ef ljósin voru hins vegar ofan á Akrafjalli er þar líklega um þrjá göngumenn að ræða með höfuðljós (hef séð slíkt í Esjunni t.d.). 

Í sömu frétt segir ennfremur:

Sundlaugargestir á Dalvík sáu svo mjög skært og hvítt ljós í nokkrar sekúndur yfir Svarfaðadal á sjöunda tímanum í gærkvöldi, en ljósið líktist ekki stjörnuhrapi. Um svipað leiti sást í suðvestururátt frá Akureyri, skært hvítt ljós með margliltri ljósrák á eftir sér.

Í gærkvöldi sáu  feðgin skær grænt ljós í noðraustur frá Salahverfi í Kópavogi og lýsti það í nokkrar sekúndur. Engar skýringar hafa fundist á þessum ljósum.

Ég var spurður út í fyrri lýsinguna en eins og sjá má er ekki minnst á það í þessari (svo virðist sem fréttamenn vefmiðla lesi stundum ekki fréttirnar sem birtast á eigin miðlum). Þarna er annað hvort um að ræða loftsteinahrap (þau eru ekki öll eins) eða Iridum blossi. Iridium eru gervitungl sem auka birtu sýna skyndilega eins og sjá má hér undir. Þau geta verið svo dauf að þau sjást ekki eina stundina og lýst svo hratt upp að þau verða bjartari björtustu stjörnur í nokkrar sekúndur, eins og sjá má hér undir.

Tveir mjög bjartir Iridum blossar voru sýnilegir frá Íslandi klukkan 19:49 og 22:32 í gær, annar í suð-suðvestur en hinn í austurátt.

Seinni lýsingin gæti verið norðurljós í fjarska (þau eru oftast græn, sjást best í norðurátt og eru stundum bara öflug í stutta stund og geta horfið á bakvið ský eða fjöll). Hér þyrfti reyndar betri lýsingu til að hægt sé að átta sig almennilega á því.

Öll þessi ljós eiga sér fallegar og spennandi jarðneskar útskýringar. Ástæða þess að þetta eru kölluð furðuljós er vegna þess hve sjaldan fólk horfir til himins og það þekkir ekki það sem þar má sjá. Ekkert skrítið við það, en þau má öll útskýra og eru hversdagslegri atburðir en fólk gerir sér grein fyrir.

Himininn er töfrandi. Þú ættir að líta oftar upp til hans. 

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég sá eitt sinn og heyrði loftsteinahrap. Mig minnir að það væri árið 1974 og ég var norður á Skaga. Þetta var um bjartan dag, síðdegis minnir mig og að sumri til. Það sem ég sá var rauðleit rák á himni, ekkert ýkja áberandi, en hávaðinn var býsna mikill þegar þessi geimgestur þeyttist í gegnum lofthjúpinn. Ég varð bæði skelkaður og undrandi en allt gekk þetta yfir á svipstundu. Hundur, sem með mér var, varð sýnilega einnig mjög óttasleginn en ekki veit ég hvort hann undraðist. Loftsteinninn mun hafa fallið í hafið, ef eitthvað var þá eftir af honum þegar ferill hans náði haffletinum.

Kristján Sveinsson (IP-tala skráð) 27.10.2011 kl. 11:22

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Gaman að heyra af þessu! Þetta hefur verið ansi tignarlegt. Þetta er frægur steinn sem féll í hafið og margir urðu vitni að.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 28.10.2011 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband