Tveimur Marsförum skotið á loft í nóvember

Í nokkrar vikur í nóvember og desember í ár opnast gluggi til Mars. Það gerist á 26 mánaða fresti eða svo, þegar jörðin og Mars mætast á göngu sinni um sólina en þá er minnst bil á milli reikistjarnanna og hagkvæmast að senda þangað geimför. Sé tækifærið ekki nýtt verða menn að bíða í meira en tvö ár þar til næsti gluggi opnast.

Og í ár verður tveimur nýjum Marsförum skotið á loft. 

Þann 8. nóvember næstkomandi, klukkan 20:16 að íslenskum tíma, verður rússneska sýnasöfnunarfarinu Fóbos-Grunt og kínverska brautarfarinu Yinghuo-1 skotið á loft frá Baikonur í Kasakstan. Fóbos-Grunt fer á braut um Mars í september eða október 2012 og sendir þá Yinghuo-1 á sína eigin braut um reikistjörnuna. Í febrúar eða mars 2013 mun Fóbos-Grunt lenda á Fóbosi, öðru af tveimur tunglum Mars, safna þar sýnum og snúa með þau aftur til jarðar í ágúst 2014. Sýnasöfnunarhylkið er á stærð við körfubolta en innan í því er lífhylki á stærð við mini-disk (ef einhver man eftir þeim) sem ég fjallaði um í annarri og ítarlegri bloggfærslu.

Þann 25. nóvember næstkomandi, klukkan 15:21 að íslenskum tíma, hyggst NASA senda næsta Marsjeppa út í geiminn. Hann nefnist Curiosity eða Mars Science Laboratory og er ekki ósvipaður golfbíl að stærð. Hann notar ekki sólarorku til að aka um yfirborðið eins og fyrirrennarar sínir Sojourner og Spirit og Opportunity, heldur er hann kjarnorkuknúinn. Hann lendir auk þess á nýstárlegan hátt eins og sjá má hér undir (lendingin hefst í kringum 1:30 mín):

Curiosity á að lenda í Gale gígnum upp úr klukkan 5 um morguninn að íslenskum tíma þann 6. ágúst 2012. Á Mars verður það um eftirmiðdag, einn fagran síðvetrardag á suðurhveli Mars. Jeppinn mun lenda ofan á eða við aurkeilu í gígnum þar sem augljós merki eru um að vatn hafi runnið. Í gígnum eru auk þess merki um leir, súlföt og blaðsíliköt, — allt fyrirbæri sem myndast í vatni. 

Ætli eitthvað forvitnilegt leynist þar? Örugglega, og það er líka ástæða þess að jeppinn er sendur þangað. 

Hægt er að lesa sér betur til um Fóbos-Grunt og Curiosity á Stjörnufræðivefnum.

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband