Skref í rétta átt

Margir mótmæla þessu og segja að þetta skerði umferðaröryggi. En það er ekkert sem bendir til að svo sé. Skýrslur um umferðaröryggi víða um heim renna stoðum undir það að lýsing á vegum utan þéttbýlis dragi ekki úr slysahættu heldur auki þvert á móti umferðarhraða sem leiðir til verri slysa. 

Um þetta má lesa í ágætri skýrslu Vegagerðarinnar. Þar segir í samantekt (fyrir þá sem stinga höfðinu í sandinn og vilja ekki lesa hana):

Skoðaðar voru ýmsar erlendar heimildir um veglýsingu og áhrif hennar á umferðaröryggi. Almennt má segja, að lýsing gatna innan þéttbýlis auki umferðaröryggi. Þessi áhrif eru alls ekki jafn skýr fyrir vegi í dreifbýli.

og

Auk þess var hugsanlegur ávinningur af lýsingu Reykjanesbrautar skoðaður sérstaklega.  Í ljós kom, að ávinningur í myrkri er lítill og ómarktækur.  Nokkrar ákeyrslur hafa orðið á staura. 

og 

Ekki er hægt að búast við neinum ávinningi við lýsingu Suðurlandsvegar yfir Hellisheiði.

og að lokum:

Hér er mælt með því, að vegkaflar í dreifbýli verði ekki lýstir upp.

Hér í Svíþjóð þar sem ég bý þessi misserin eru vegir milli þéttbýlisstaða almennt óupplýstir og lýsing almennt minni en heima á Íslandi. Mér finnst það mikill kostur.

Spörum götulýsinguna og njótum myrkursins fyrir utan þéttbýlissvæðin. Stjörnurnar njóta sín betur, norðurljósin líka. 

Slokkni ljós, kvikni stjörnur! 

- Sævar Helgi


mbl.is Dimmir yfir Reykjanesbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Svo mætti líka beina því til sumarhúsaeigenda að hafa útiljósin slökkt þegar enginn er að nota þau.  Reynslan sýnir nefnilega að þau virka sem segull á óboðna gesti og vísa þeim veginn að bústaðnum í myrkrinu.

Ágúst H Bjarnason, 1.11.2011 kl. 16:15

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Að ekki sé minnst á þá vitleysu. Sumarbústaðir eru eins og eyjur í myrkrinu sem draga mann til sín.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 2.11.2011 kl. 11:34

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er sammála því að götulýsing á dreifbýlisvegum er óþörf og jafnvel skaðleg. En þú segir :

"..eru vegir (í Svíþjóð) milli þéttbýlisstaða almennt óupplýstir.."

Hversu "almennt"? og ef rannsóknir sýna að lýsingin eykur slysahættu, hvers vegna er þá lýsingin ekki alfarið lögð niður á þessum stöðum?

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.11.2011 kl. 14:27

4 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Ég segi almennt því ég get ekki fullyrt að þetta sé svona alls staðar en það sem ég hef séð hingað til eru hraðbrautir óupplýstar. Það er helst við gatnamót að ljósastaurar séu. Hér í Svíþjóð hugsa ég nú samt að málið sé fyrst og fremst sparnaður því orkan er heldur betur ekki ódýr eins og á Íslandi. Pólitíkusar heima mega ekki heyra á þetta minnst — Hellisheiðin skal upplýst og hananú, eða þannig kemur það mér fyrir sjónir.

Miðað við það sem ég hef séð, þá þarf maður rétt að fara út úr bænum (Lundi) til að aka óupplýsta vegi. Innanbæjar er heldur ekki næstum eins þétt milli ljósastaura og heima á Íslandi, jafnvel á hraðbrautum. Auk þess eru göngustígar harla lítið upplýstir.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 2.11.2011 kl. 15:14

5 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Gunnar Th. Gunnarsson ég verð að taka undir með Sævari Helga. Myrkvaðar hraðbrautir á Skáni eru meginregla! Ég hef líka flogið nokkrum sinnum milli Arlanda og Kastrup og það sama sagan. Maður sá aldrei þjóðvegina nema ökutæki væru þar á ferð.

Kveðja, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 6.11.2011 kl. 14:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband