4.11.2011 | 16:14
Búist er við sólstormi...
Einhvern tímann í framtíðinni verður fylgst jafn náið með geimveðrinu og því jarðneska. Notaleg rödd frá geimveðurstofu Íslands segði okkur þá ef til vill: Fyrst er viðvörun: Búist er við sólstormi, meira en 900.000 metrum á sekúndu við jörðina í kvöld og nótt með líkum á norðurljósum.
Þessi lýsing gæti vel átt við næstu daga því á sólinni er stærðarinnar sólblettur sem hefur þegar varpað nokkrum vænum gusum út í geiminn, til að mynda í gær (3. nóv) (.mov). Engin hefur reyndar stefnt til okkar enn sem komið er en næstu daga færist sólblettasvæðið í átt að jörðinni og þá gætum við átt von á að fá yfir okkur skvettur.
Mynd: NASA/SDO
Það er ekkert víst í þessum efnum en áhugasamir ættu alla vega að fylgjast vel með og vonast eftir góðu veðri; norðurljósin gætu nefnilega orðið mjög falleg í næstu viku.
p.s. Til gamans má geta þess kórónuskvettan sem fylgdi blossanum 3. nóvember er að hellast yfir Merkúríus þegar þetta er skrifað (kl. 16:10, 4. nóv). MESSENGER geimfarið sem er á braut um Merkúríus mun fylgjast með áhrifum skvettunnar á reikistjörnuna. Ef skvettan yfirgnæfir tiltölulega veikt segulsvið Merkúríusar gæti hún hrifið með sér efni af yfirborði Merkúríusar, myndað lofthjúp tímabundið og bætt við efni í hala Merkúríusar (já, Merkúríus hefur hala!).
p.p.s. Undirritaður var gestur í Morgunþætti Rásar 2 í morgun.
- Sævar
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:15 | Facebook
Athugasemdir
"Búist er við suð-vestan sólstormi með norðurljósahraglanda í kvöld og nótt. Geimfarendur eru beðnir að fara varlega"
Kannski verða þetta "Geim veðurfréttir" framtíðarinnar ... nema auðvitað þetta með suð-vestan, það stuðlaði bara svo vel við sólstorminn
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.11.2011 kl. 16:21
Alltaf jafn skemmtilegt og fróðleiksfúst að lesa ykkar blogg.
Sigurður Kristján Hjaltested (IP-tala skráð) 4.11.2011 kl. 18:32
Sæll Sævar áhugavert blogg hjá þér sem oftast. Dóttir mín býr í Fjallabyggð og hún þarf oft að fara um Héðinsfjarðargöng síðla dags vegna vinnu sinnar. Hún segir mér, að nýr heimur (geimur) ljúkist upp fyrir sér í botni Héðinsfjarðar, nær himininn er heiðskír! Ég hef ráðlagt henni að gerast bloggvinur ykkar á Stjörnufræðivefnum. Ég vona, að hún og bóndi hennar láti verða að því.
Með góðri kveðju, KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 6.11.2011 kl. 14:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.