Stórmerkilegur leiðangur

f-g_launch_lg.jpgVið höfum áður sagt frá þessum stórmerkilega leiðangri. Með Fóbos-Grunt í för er kínverska brautarfarið Yinghuo-1 en þetta er fyrsti leiðangur Kínverja út í sólkerfið. Fóbos-Grunt fer á braut um Mars í september eða október 2012 og sendir þá Yinghuo-1 á sína eigin braut um reikistjörnuna. Í febrúar eða mars 2013 mun Fóbos-Grunt lenda á Fóbosi, öðru af tveimur tunglum Mars, safna þar sýnum og snúa með þau aftur til jarðar í ágúst 2014. Sýnasöfnunarhylkið er á stærð við körfubolta en innan í því er lífhylki á stærð við mini-disk (ef einhver man eftir þeim) sem fjallað var um í annarri og ítarlegri bloggfærslu.

Síðar í mánuðinum, 25. nóvember, verður síðan næsta Marsjeppa skotið á loft frá Canaveralhöfða í Flórída. Hann nefnist Curiosity eða Mars Science Laboratory og er ekki ósvipaður golfbíl að stærð. Hann notar ekki sólarorku til að aka um yfirborðið eins og fyrirrennarar sínir Sojourner og Spirit og Opportunity, heldur er hann kjarnorkuknúinn.

Curiosity á að lenda í Gale gígnum upp úr klukkan 5 um morguninn að íslenskum tíma þann 6. ágúst 2012. Á Mars verður það um eftirmiðdag, einn fagran síðvetrardag á suðurhveli Mars. Jeppinn mun lenda ofan á eða við aurkeilu í gígnum þar sem augljós merki eru um að vatn hafi runnið. Í gígnum eru auk þess merki um leir, súlföt og blaðsíliköt, — allt fyrirbæri sem myndast í vatni. 

Ætli eitthvað forvitnilegt leynist þar? Örugglega, og það er líka ástæða þess að jeppinn er sendur þangað. 

Hægt er að lesa sér betur til um Fóbos-Grunt og Curiosity á Stjörnufræðivefnum.

p.s. Bæði Vísir.is og Mbl.is kalla tunglið Phobos upp á enska vísu en íslenska heitið er að sjálfsögðu Fóbos.


mbl.is Rússar senda geimfar til Mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar Pálsson

Er þetta rússneska farið sem fór af leið?

Voru bessadýr um borð?

Arnar Pálsson, 9.11.2011 kl. 22:57

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Já og nú þurfa bessadýrin að taka á honum stóra sínum og laga geimfarið vilji þau snúa aftur heim til jarðar

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 9.11.2011 kl. 23:19

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Illa er fyrir rússnesku geimferðaáætluninni komið er þeir þurfa á verkkunnáttu bessadýra að treysta.

Arnar Pálsson, 10.11.2011 kl. 20:39

4 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Segðu. Menn virðast hafa sömu möguleika á að lagfæra þetta og sveppurinn sem er líka um borð. Reiðum okkur þess vegna á bessadýrin frekar

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 10.11.2011 kl. 22:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband