Það er risastór glóandi könguló á himninum

Í Dularfulla stjarnan rekur Tinni upp stór augu þegar hann lítur í gegnum stjörnusjónauka. Hann sér risavaxna könguló. Sú könguló var reyndar jarðnesk og aðeins framan á linsunni. Hefði Tinni verið staddur á suðurhveli jarðar hefði hann hins vegar getað skoðað risastóra glóandi könguló úti í geimnum.

Í tvígang hef ég verið svo heppinn að komast í stjörnuskoðun á suðurhveli. Suðurhimininn er stórkostlegur og geymir eitt allra fegursta fyrirbæri næturhiminsins: Tarantúluþokuna í Stóra-Magellansskýinu. Hún sést með berum augum þótt ljósið frá henni hafi verið 160.000 ár á leið til jarðar.

30dor.jpg

Mynd í röntgenljósi: NASA/CXC/PSU/L.Townsley et al. Mynd í innrauðu ljósi: NASA/JPL/PSU/L.Townsley et al.

Tarantúluþokan er eitt stærsta stjörnumyndunarsvæðið í námunda við Vetrarbrautina okkar. Í miðju hennar er þyrping næstum 2.400 gríðarstórra og þungra stjarna, þar á meðal þyngstu stjörnu sem vitað er um, R136a. Þessar stjörnur komu tiltölulega nýlega fram á sjónarsviðið, fyrir aðeins örfáum milljónum ára hið mesta. En þar sem stærstu stjörnurnar lifa skemmst eru þær þegar orðnar „miðaldra“ þótt í raun séu þær barnungar í samanburði við hversdagslegri stjörnur eins og sólina okkar. Þessar ungu og heitu stjörnur gefa frá sér griðarsterka geislun og öfluga stjörnuvinda sem feykja gasi burt og móta ásjónu geimþokunnar: Þær lýsa þokuna upp.

Myndin hér að ofan var tekin með Chandra röntgengeimsjónauka NASA. Hún sýnir gas sem hefur hitnað svo óskaplega af völdum stjörnuvindanna og höggbylgna frá sprengistjörnum í nágrenninu að það mælist margar milljónir gráða á Celsíus og gefur því frá sér röntgengeislun. Þetta heita gas þenst út og myndar risavaxnar bólur í kringum kaldara gas og ryk sem hér sést á innrauðri ljósmynd Spitzer geimsjónaukans. Hubble geimsjónaukinn hefur líka tekið stórkostlegar myndir af Tarantúlunni.

Tarantúluþokan er dæmi um rafað vetnisský. Röfuð vetnisský verða til þegar geislunin frá heitu ungu stjörnunum rífur burt rafeindir frá óhlöðnum vetnisatómum svo úr verður ský úr jónuðu vetni. Tarantúluþokan er stærsta rafaða vetnisský sem við vitum um í nágrenni okkar í alheiminum. Þess vegna eru stjörnufræðingar mjög duglegir við að rannsaka þessa fallegu þoku.

Hægt er að lesa sér betur til um Tarantúluþokuna á Stjörnufræðivefnum.

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er stórbrotið!

Að hugsa sér að allt hafi þetta orðið til af hendingu...

Jóhann (IP-tala skráð) 10.11.2011 kl. 23:59

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Könguló?? Þetta er líkara því að einhver á himnum sé að gefa okkur óæðri fingurinn.

FORNLEIFUR, 11.11.2011 kl. 00:36

3 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Hún minnir reyndar meira á könguló séð í gegnum stjörnusjónauka en á mynd. En hér er alheimurinn raunverulega að sýna okkur puttann.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 11.11.2011 kl. 10:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband