Líf og fjör á kennaranámskeiði í stjörnufræði

„Ég get ekki hætt að lofa þetta námskeið í skólanum“ sagði einn kennari í tölvupósti til okkar eftir kennaranámskeið í stjörnufræði sem við héldum síðustu helgi. Það er aldeilis!

Meira en 100 grunn- og framhaldsskólakennarar (og stöku leikskólakennarar) hafa sótt námskeið hjá okkur um stjörnufræði og stjörnuskoðun síðustu misseri. Við reynum að sýna kennurunum góðar aðferðir við að miðla ýmsum hugtökum í stjörnufræði á nýstárlegan og vonandi skemmtilegan hátt. Markmiðið er að efla vísindakennslu í skólum og veita kennurum stuðning.

Efnistök námskeiðanna eru margvísleg. Við fjöllum um Galíleósjónaukann, sýnum stjörnufræðihugbúnað sem henta í kennslu, tölum um dýrahringinn og stjörnumerkin, notum einfalt sýnidæmi til að sýna hvers vegna tunglið vex og dvínar og tölum um sólkerfið og alheiminn. Við reynum alltaf að brydda upp á einhverjum nýjungum. Í þetta sinn ákváðum við að gera rennblauta og hressandi tilraun um árekstra vetrarbrautaþyrpinga til að útskýra hulduefni.

Skoðaðu fyrst þessa mynd af Byssukúluþyrpingunni:

heic0818a.jpg

Hér eru tvær vetrarbrautaþyrpingar nýbúnar að rekast saman. Í öllum vetrarbrautaþyrpingum er heitt gas (sýnt bleikt) sem rekst saman og situr eftir í miðjunni á meðan vetrarbrautirnar sjálfar eru óskaddaðar og sitt hvoru megin við gasið. Í kringum vetrarbrautirnar er ósýnilegur massi sem heldur þeim saman og stjörnufræðingar kalla hulduefni (sýnt fjólublátt).

Til þess að útskýra þessa mynd settum við upp blauta tilraun sem við rákumst á á netinu.

img_1155a.jpg

Vatnið táknar heita gasið í þyrpingunum og litlar frauðkúlur (sem sjást illa á myndinni) eru vetrarbrautirnar. Alveg eins og í raunveruleikanum rekst vatnið saman í miðjunni en vetrarbrautirnar (kúlurnar) fara í gegn. Í kringum þær er hulduefnið sem heldur þeim saman.

Þetta virkaði mjög vel. Var stórskemmtilegt og uppskar hlátrasköll kennaranna.

Kennaranámskeiðin eru stór og mikilvægur hluti af okkar starfi. Við munum halda fleiri á næsta ári og ef einhverjir kennarar lesa þetta þá mælum við og kollegar ykkar eindregið með því!

----

Í vikunni þaut lítið 400 metra breitt smástirni framhjá jörðinni. Í dag birtist stórmerkileg frétt um annað smástirni sem menn komust nýlega að því að væri leifar þess efnis sem myndaði jörðina. Smástirnið nefnist Lútesía og er 100 km í þvermál. Lesa má nánar um það hér.

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband