29.11.2011 | 13:12
Bókin sem íslenskir bókaútgefendur vildu ekki gefa út!
Hvaða bók skildi það vera sem íslenskir bókaútgefendur vildu ekki gefa út?
Jú, það er nýjasta bók Stephen Hawking, Skipulag alheimsins. Þýðendur bókarinnar, annar blaðamaður hjá Morgunblaðinu og hinn prófessor í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands, urðu að taka á sig fjárhagslega áhættu og gefa bókina út sjálfir.
En hvers vegna vildu íslensk útgáfufyrirtæki ekki gefa þessa frábæru vísindabók út? Ég heyrði því fleygt að ein af ástæðunum væri sú að í bókinni er tæpt á viðkvæmu trúarlegu efni. Höfundar bókarinnar, Hawking og Mlodinow, vilja nefnilega meina að engan guð þurfi til að skapa alheiminn.
Það er skandall ef satt er og bókaútgefndum til mikillar minnkunar. Ég vil ekki trúa því.
Mér finnst líklegra að ástæðurnar séu aðallega tvær: Áhugaleysi og lítil trú á að bókin seljist.
Það er ekki beinlínis hægt að segja að íslensk bókaforlög hafi staðið sig vel í að gefa út bækur um vísindi. Þau virðast hafa afskaplega lítinn áhuga á þeim. Fyrir vikið eiga þau talsverðan þátt í að draga úr vísindalegu læsi á Íslandi og mega alveg skammast sín fyrir það.
Ef þau telja að bókin seljist illa skjátlast þeim hrapallega. Bókin hefur nefnilega og mun seljast vel. Hvers vegna ætti bók eftir einn þekktasta vísindamann heims ekki að seljast í nægu upplagi til að það borgaði sig að gefa hana út? Hversu margar fagurbókmenntir ætli komi út fyrir jólin sem enda í bullandi mínus?
Við hvetjum alla til að eignast þessa frábæru vísindabók og gefa heppnum í jólagjöf. Við munum leggja okkar af mörkum.
Hægt er að kaupa hana beint frá útgefendum hér á aðeins 3.990 kr.
Bendum líka á fleiri áhugaverðar vísindavænar gjafir.
- Sævar Helgi
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Ég er einmitt í þessum skrifuðu orðum að rífa bókina úr plastinu. Ég pantaði hana eftir ábendingu frá ykkur, um helgina. Ég hlakka til að lesa hana og sé að hún er skemmtilega upp sett, með slatta af myndum og húmorinn er heldur ekki langt undan, því einnig eru nokkrar myndaskrítlur í bókinni. Ein er svona:
Tveir menn eru kynntir í samkvæmi og kynnirinn segir: "Þið eigið svolítið sameiginlegt. Dr. Davis hefur uppgötvað ögn sem engin hefur séð og prófessor Higbe hefur uppgötvað vetrarbraut sem engin hefur augum litið".
Gunnar Th. Gunnarsson, 29.11.2011 kl. 14:15
Iss! Lélegt af bókaútgefnum. Búin að panta og greiða. Hlakka til að lesa :-)
Kveðja að norðan. (úr ófærðinni)
Arinbjörn Kúld, 29.11.2011 kl. 14:17
ég fæ mér hana í jólagjöf :) og hlakka ekkert smá til
Jónatan Gíslason, 29.11.2011 kl. 20:12
Þessi myndaskrítla er heldur betur sönn!
Ánægður með ykkur! Njótið bókarinnar!
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 29.11.2011 kl. 22:46
Þetta er bók sem ég á örugglega eftir að eignast
Verð að drífa í að panta!
Ágúst H Bjarnason, 30.11.2011 kl. 16:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.