Nokkrar merkilegar fréttir í dag

Nokkrar merkilegar fréttir hafa birst úr heimi stjarnvísinda í dag. Hér er fjallað um þrjár þeirra.

607769main_kepler22bdiagram_800-600.jpgFréttin um Kepler-22b er mjög merkileg. Hún sýnir að Keplerssjónaukinn er vel fær um að finna reikistjörnur á stærð við jörðina í lífbeltum sinna sólkerfa, því svæði í sólkerfi þar sem hvorki er of heitt né of kalt, heldur akkúrat passleg til að vatn geti verið á fljótandi formi. Við vitum ekki efnasamsetningu lofthjúpsins (til þess þyrfti stærri sjónauka sem gæti skoðað litróf reikistjörnunnar og hann er ekki til í dag) en þarna væri forvitnilegt að leita eftir súrefni og metani, efnum sem benda eindregið til lífs. Stærð reikistjörnunnar bendir til þess að hún sé úr bergi eins og jörðin, en þar sem hún er aðeins stærri yrði hún flokkuð sem risajörð.

En hvernig fannst þessi reikistjarna?

Kepler geimsjónaukinn starir á um 156.000 stjörnur á himinhvelfingunni milli stjörnumerkjanna Svansins og Hörpunnar. Um borð í sjónaukanum er mjög næmur ljósmælir sem mælir birtubreytingar stjörnu sem verður þegar reikistjarna gengur þvert fyrir stjörnuna frá jörðu séð. Við þvergönguna dregur reikistjarnan tímabundið úr birtu stjörnunnar.

Þvergangan stendur jafnan stutt yfir, oftast í fáeinar klukkustundir en ferlið verður að endurtaka sig, valda alltaf sömu birtuminnkun og standa jafnlengi yfir í hvert sinn til að hægt sé að staðfesta tilvist reikistjörnu. Hægt er að reikna út stærð reikistjörnunnar út frá birtuminnkuninni, en umferðartímann og þar af leiðandi fjarlægðina milli stjörnunnar og reikistjörnunnar er hægt að reikna út frá tímanum sem líður milli hverrar þvergöngu.

Staðfesta þarf allar reikistjörnur sem finnast með þessari leitaraðferð með öðrum mælingum, t.d. Doppler litrófsmælingum. Í þeirri aðferð mælir sjónaukinn örlitlar breytingar í litrófi móðurstjörnunnar sem rekja má til þeirra þyngdaráhrifa sem reikistjarnan hefur á stjörnuna. Flestar reikistjörnur utan okkar sólkerfis hafa fundist með þeim hætti.

Þess vegna var á sama tíma tilkynnt um aðrar 1000 hugsanlegar reikistjörnur sem sjónaukinn hefur fundið. Í heildina hefur Keplerssjónaukinn þar með fundið 2000 mögulegar reikistjörnur sem eftir á að sannreyna. Á meðal þeirra eru rétt rúmlega 50 sem gætu verið í lífbelti sinna sólkerfa. Við bíðum spennt eftir frekari niðurstöðum.

Á næsta ári fáum við sýnishorn af þessari aðferð þegar Venus gengur fyrir sólin frá jörðu séð. Lesa má nánar um það í tímaritinu Undur alheimsins sem er nýkomið út.

Hægt er að lesa sér betur til um Keplerssjónaukann og fjarreikistjörnur á Stjörnufræðivefnum.

----

Þyngsta svarthol sem fundist hefur

Í dag var einnig tilkynnt um að stjörnufræðingar hefðu „vigtað“ svartholið í miðju sporvöluþokunnar NGC 3842 sem er í um 280 milljón ljósára fjarlægð. Það reyndist hvorki meira né minna en 9,7 milljarðar sólmassa! Í miðju okkar Vetrarbrautar er risasvarthol sem vegur „aðeins“ fjórar milljónir sólmassa.

----

VLT finnur stjörnu sem snýst hraðast allra

Í Taranatúluþokunni í Stóra Magellansskýinu, í 160.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni er stjarnan VFTS 102 sem vakið hefur athygli stjörnufræðinga. Hún er 25 sinnum þyngri en sólin okkar, hundrað þúsund sinnum bjartari og snýst 300 sinnum hraðar um sjálfa sig! Engin önnur þekkt stjarnan snýst jafn hratt. Auk þess ferðast hún hægar um geiminn en nágrannar sínir. Allt bendir þetta til þess að stjarnan eigi stutta en stormasama ævi að baki eins og lesa má um í frétt ESO eða á Stjörnufræðivefnum.

eso1147a.jpg

Hluti Tarantúluþokunnar í Stóra Magellansskýinu, fylgivetrarbraut okkar. Í miðjunni er stjarnan VFTS 102, sem snýst hraðast allra þekktra stjarna. Myndin er sett saman úr ljósmyndum sem teknar voru af sýnilegu og innrauðu ljósi með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla og 4,1 metra innrauða VISTA sjónaukanum í Paranal. Mynd: ESO/M.-R. Cioni/VISTA Magellanic Cloud Survey. Þakkir: Cambridge Astronomical Survey Unit

- Sævar Helgi


mbl.is Systurpláneta jarðar fundin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvað er Keppler-22b langt í burtu frá okkur?

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.12.2011 kl. 01:18

2 Smámynd: Einar Örn Gissurarson

Gunnar Th. Gunnarsson: 600 ljósár, skv mbl.

Tæki okkur bara sirka árþúsund að komast þangað á rúmlega hálfum ljóshraða.

Einar Örn Gissurarson, 6.12.2011 kl. 01:48

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er þá ekki best að fara að drífa sig?

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.12.2011 kl. 02:25

4 Smámynd: GunniS

þetta minnir mig soldið á frétt sem kom fyrir nokkru síðan, nema þá fannst þyrping af plánetum sem uppfylla skilirði fyrir að vera í svo kölluðu líf svæði, sem mér finnst meiri frétt en þessi. http://www.eso.org/public/news/eso1134/

GunniS, 6.12.2011 kl. 09:33

5 Smámynd: Arnar

Nú voru að finnast ummerki um fljótandi vatn á einu tungla Júpiters, sem er langt fyrir utan þetta lífbelti (habitablezone).  Gefur það ekki til kynna að lifbeltið sé hugsanlega miklu stærra og því fleirri plánetur sem koma til greina í leitinni af lífvænlegum plánetum?

Arnar, 6.12.2011 kl. 10:05

6 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

GunniS: Já, þetta er ekki fyrsta reikistjarnans sem finnst í lífbelti. Þær eru nokkrar hugsanlega en þessi sem fannst nú er ein sú smæsta. ESO fréttin er stórmerkileg og miður að hún fékk ekki meiri athygli en raun bar vitni.

Arnar: Lífbelti er mjög umdeilt hugtak innan stjörnulíffræðinnar en það er yfirleitt skilgreint þannig að vatn geti verið fljótandi á yfirborði reikistjörnu eða tungli. Fljótandi vatn á yfirborði líkist meira því sem er á jörðinni og við viljum gjarnan finna vitsmunalíf. Á Evrópu er vatnið fljótandi undir ísnum og sennilega takmarkaðar líkur á að vitsmunalíf geti orðið til við slíkar aðstæður. En jú, möguleikar á lífi virðast ótrúlega fjölbreyttir. Við vitum eiginlega ekki neitt og það gerir þetta óskaplega spennandi!

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 6.12.2011 kl. 10:35

7 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Það sem við köllum vitsmunslíf þarf kannski ekki að vera sérlega algengt í hlutfalli við annað líf - hefur a.m.k. ekki verið raunin á þessum hnetti fram til þessa. Líf gæti leynst miklu víðar en mönnum hefur dottið í hug fram til þessa.

Haraldur Rafn Ingvason, 6.12.2011 kl. 12:05

8 Smámynd: Arnar

Vitsmunaverur sem væru komnar á það stig að ferðast um og hugsanlega út fyrir sitt heima-stjörnukerfi væru alveg jafn líklegar til að halda sig nálægt einhverjum 'gæðum' (resources) sem eru þeim nauðsynleg.  Slíkur staður gæti alveg eins verið utan þessa beltis.

Arnar, 6.12.2011 kl. 13:27

9 Smámynd: Arnar

Það sem ég var að reyna að segja er að, úr þessari fjarlægð sem við erum við 'umheimin' þá er vita vonlaust að nema einhver merki önnur en einhverja geislun eða bylgjur sem eiga sér ó-náttúrulegan uppruna.  Uppruni slíkrar geislunar/bylgja gæti alveg eins verið einhverstaðar utan heima plánetu vitsmunaveranna, td. þar sem þær stunduðu námugröft eða einhverja annarskonar vinnslu.

Við myndum tæplega greina merki um óvitsmunalegar verur því þær búa ekki yfir getunni til að framkalla slíka geislun eða bylgjur.

Arnar, 6.12.2011 kl. 13:34

10 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Á mars hafa menn verið að mæla metan. Það gæti átt sér lífrænan, en jafnframt "óvitsmunalegan" uppruna

Haraldur Rafn Ingvason, 6.12.2011 kl. 13:45

11 Smámynd: Arnar

Jaa.. menn þurftu nú að ferðast til Mars til að mæla þetta metan, eftir því sem ég best veit :)

Arnar, 6.12.2011 kl. 15:10

12 Smámynd: GunniS

en með umræðu um líf á öðrum hnöttum. þá man ég eftir svari sem Edgar Cayce gaf við þeirri spurningu, og sagði hann já, að það væri líf á öðrum hnöttum en það væri ekki á eins formi og á jörðinni.

ef einhver man ekki hver Edgar Cayce var þá var hann lækningamiðill. 

GunniS, 6.12.2011 kl. 16:53

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Edgar Cayce var froðusnakkur og svindlari. Nafn hans á ekki erindi í fræðilega umræður... að mínu mati.

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.12.2011 kl. 17:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband