7.12.2011 | 11:55
Tunglmyrkvi á laugardaginn
Laugardaginn 10. desember næstkomandi verður tunglmyrkvi. Myrkvinn sést best frá Asíu og Ástralíu en frá Evrópu sést hann að hluta. Tunglið verður almyrkvað þegar enn er dagsbirta á Íslandi og það undir sjóndeildarhring en Íslendingar munu samt geta séð sitthvað.
Einu (heppnustu!) íbúar landsins sem sjá rauðu almyrkvuðu tungli bregða fyrir eru Austfirðingar. Tunglið rís nefnilega austast á landinu skömmu áður en almyrkva lýkur klukkan 14:58. Annars staðar á landinu rís tunglið deildarmyrkvað (klukkan 15:28 í Reykjavík) en því stigi myrkvans lýkur klukkan 16:18 samkvæmt upplýsingum úr Almanaki Háskólans fyrir árið 2011.
Þótt fæstir landsmenn sjái rautt almyrkvað tungl verður engu að síður tignarlegt að fylgjast með deildarmyrkvanum. Þegar tunglið rís verður upplýsti hluti þess appelsíngulur með dökkan jarðskugga yfir hægri helmingnum.
Auk þess mun tunglið virka óvenju stórt lágt á himninum en það er skynvilla. Tunglið virðist stærra við sjóndeildarhringinn en það í raun og veru er vegna þess hvernig við skynjum lögun himinhvelfingarinnar. Þú getur sannreynt það sjálf(ur) með því að beygja þig og horfa á það á hvolfi. Hvað gerist? Tunglið minnkar! Reistu þig við og tunglið stækkar! Einhverjir munu reka upp stór augu og hlæja að þér en fyrirgef þeim, þau vita nefnilega ekki hvað þú ert að gera.
Um kvöldið er síðan tilvalið að virða fyrir sér næturhimininn (náðu þér í stjörnukort). Tunglið er fullt í stjörnumerkinu Nautinu. Rétt undir því er rauði risinn Aldebaran, tarfsaugað, sem sýnir okkur hvernig sólin mun líta út eftir á að giska 6 milljarða ára. Í kringum Aldebaran er stjörnuþyrping sem kallast Regnstirnið og lítur út eins og ör sem bendir til hægri.
Í stefnu klukkan sjö frá Aldebaran er rauði reginrisinn Betelgás í Óríon. Dag einn springur hún og verður þá líklega jafn björt fulla tunglinu. Í sverði Óríons, undir Fjósakonunum þremur, er risavaxin stjörnuverksmiðja, Sverðþokan í Óríon, sem alltaf er gaman að virða fyrir sér í gegnum sjónauka.
Bjartasta stjarnan á himninum, hægra megin við tunglið, er reikistjarnan Júpíter. Margir rugla Júpíter saman við Alþjóðlegu geimstöðina en því miður er það staðreynd að geimstöðin sést aldrei frá Íslandi.
Stjörnuhiminnin laugardagskvöldið 10. desember 2011. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum.
Við hvetjum fólk um land allt til að fylgjast með deildarmyrkvanum og Austfirðinga sérstaklega. Nú ef veðrið er óhagstætt er hægt að rifja upp þann dásamlega myrkva sem við urðum vitni að á stysta degi ársins í fyrra. Næst sést almyrkvi á tungli frá Íslandi 28. september 2015.
Mynd af tunglmyrkva: © Snævarr Guðmundsson, 2010
---
Vampírustjarna ljóstrar upp eigin leyndarmáli
Stjörnufræðingar hafa náð bestu mynd sem tekin hefur verið af stjörnu sem hefur glatað stórum hluta massa síns til fylgistjörnu sinnar. Með því að beina ljósgeislum sem safnað var með fjórum sjónaukum í Paranal stjörnustöðinni í einn punkt, gátu stjörnufræðingar útbúið 130 metra breiðan sýndarsjónauka sem var 50 sinnum skarpari en Hubblessjónauki NASA og ESA. Niðurstöðurnar eru óvæntar því þær sýna að flutningur efnis frá annarri stjörnunni til hinnar er mun rólegri en búist var við.
Sjá nánar hér http://www.eso.org/public/iceland/news/eso1148/
- Sævar Helgi
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 8.12.2011 kl. 14:45 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.