Veröld ALMA að nóttu til

potw1150a.jpg

Mynd: ESO/Babak Tafreshi

Mikið er þetta falleg mynd. Og svo ótalmargt að sjá á henni. Mæli með að þú skoðir hana í betri upplausn hér.

Myndina tók Babak Tafreshi, Írani sem er nýjasti ljósmyndari ESO. Babak er líka heilinn á bakvið frábært verkefni sem heitir The World at Night sem gengur út á það eitt að taka fallegar ljósmyndir af fallegum stöðum á jörðinni að nóttu til. Þetta verkefni hefur meðal annars getið af sér stórkostlegar myndir eins og þessa og þessa (fleiri hér).

Hér sjást nokkur loftnet ALMA stjörnustöðvarinnar. ALMA er stærsta stjörnustöð heims og líka sú hæsta. Hún er í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli á Chajnantor sléttunni í Atacamaeyðimörkinni í Chile sem er einn þurrasti staður veraldar.

Tunglið lýsir upp umhverfis svo það virðist bjart á myndinni. Skærasta stjarnan á himninum — vinstra megin á myndinni — er reikistjarnan Júpíter. Gasrisinn er alla jafna þriðja bjartasta fyrirbæri næturhiminsins á eftir tunglinu og Venusi.

Hægra megin sjást fylgivetrarbrautir okkar vetrarbrautar, Litla og Stóra Magellanskýið. Það stóra er neðar, rétt fyrir ofan loftnetið, í 160.000 ljósára fjarlægð. Í því er Tarantúluþokan, ein öflugasta stjörnuverksmiðja sem við vitum um í nágrenni okkar í geimnum. Þar sást stjarna springa árið 1987.

Litla Magellansskýið er í 200.000 ljósára fjarlægð frá okkur. Ég tók eitt sinn mynd af því þegar ég var í stjörnuskoðun í Atacamaeyðimörkinni, örskammt frá ALMA. Hér er hún:

DSC_3514

Ofarlega vinstra megin er kúluþyrpingin 47 Tucanae. Hún er meira en tíu sinnum nær okkur en Litla Magellanskýið og ein allra fallegasta kúluþyrping sem hægt er að skoða með stjörnusjónauka.

Við hlið loftnetsins vinstra megin er Andrómeduþokan. Hún sést sem ílangur þokublettur enda vetrarbraut sem liggur á rönd. Hún er fjarlægasta fyrirbærið á myndinni í meira en 2 milljóna ljósára fjarlægð frá okkur.

Minnum líka á Mynd vikunnar á Stjörnufræðivefnum.

---

Tveir góðir þættir á Rás 1

Ottó Elíasson, einn af umsjónarmönnum Stjörnufræðivefsins, var gestur Hönnu G. Sigurðardóttur í þættinum Okkar á milli á Rás 1 á fimmtudaginn í síðustu viku. Þar ræddi hann um Kepler-22b og örlög alheimsins, meðal annars. Hægt er að hlusta á þetta skemmtilega spjall hér.

Svo mælum við alltaf með Tilraunaglasinu á Rás 1. Í þættinum á föstudaginn var Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra í góðu spjalli um stöðu vísinda á Íslandi. Hægt er að hlusta á þáttinn hér.

Svo er Tilraunaglasið líka á Facebook

----

E-ELT færist nær veraleikanum

eso1150a.jpg

Ég get vart beðið eftir að European Extremely Large Telescope, næsti risa-risasjónauki verði tekinn í notkun, þótt það verði ekki fyrr en snemma næsta áratug. Á fundi yfirstjórnar European Southern Observatory í síðustu viku samþykkti ESO ráðið að hefja undirbúningsvinnu fyrir þetta risaverkefni. Það er stórt skref í átt til þess að sjónaukinn verði að veruleika.

Nánar má lesa um það hér.

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband