17.12.2011 | 09:41
Dæmigerð Iridium gervitungl
Uppfært 18. desember kl. 21:00. Stundum hefur maður rangt fyrir. Í ljós hefur komið að myndskeiðið sýnir sama fyrirbæri og við útskýrðum sambærileg ljós sem sáust snemma í mánuðinum í Skagafirði: ljósker. En hvers vegna dró ég þessa ályktun?
Í fyrsta lagi sýndi myndskeiðið tvö ljós og annað birti skyndilega upp eins og dæmigerður Iridiumblossi. Í öðru lagi er það stórskemmtileg tilviljun að þetta sama kvöld á sama tíma urðu tveir Iridiumblossar með örfárra sekúndna millibili á svipuðum stað á himninum! Í þriðja lagi skiptir öllu að fá greinargóða lýsingu á ljósunum. Hvernig var það á litinn? Fór ljósið hratt yfir himinninn? Hvað var það hátt á lofti? Hve lengi entist það? Þetta eru allt upplýsingar sem hjálpa til að finna réttu lausnin.
Í gærkvöld sá ég þrjú ljósker takast á loft í Mosfellsbæ. Þau sjást víða að og eru nokkuð björt.
---
Um 18 mínútum fyrir klukkan átta í gærkvöld urðu tveir Iridiumblossar á norðurhimninum með nokkurra sekúndna millibili og stóðu yfir í örfáar sekúndur. Ekki veit ég hvenær þetta myndskeið var tekið (samkvæmt upplýsingum frá fréttastofu Vísis.is og Stöðvar 2 var myndskeiðið tekið á þessum tíma) en fljúgandi furðuhlutirnir sem þarna sjást hegða sér eins og Iridiumblossar. Báðir urðu töluvert bjartari en reikistjarnan Júpíter sem skín svo skært þessa dagana sem skýrir hvers vegna myndatökumaðurinn náði að grípa blossana á það sem mér sýnist vera símamyndavél.
Iridium er gervitunglaklasi sem svífa um jörðina. Þegar þau breyta stefnu sinni niður í átt að yfirborði jarðar sjáum við stærri hluta af þeim endurvarpar sólarljósinu. Þá eykst skyndilega birta þeirra mikið og úr verður svokallaður Iridiumblossi. Gervitunglin sjást varla eða alls ekki eina stundina en í nokkrar sekúndur blossa þau skyndilega svo upp að þau verða bjartari en björtustu reikistjörnur á himni. Hér undir er myndskeið sem sýnir dæmigerðan Iridiumblossa.
Það gerðist sem sagt í tvígang gærkvöld, um 18 mínútum fyrir klukkan átta.
Kosturinn við þessa blossa er sá að hægt er að segja fyrir um hvenær þeir verða. Það er skemmtilegt partýtrikk! Samkvæmt Heavens-Above.com verða í kvöld nokkrir blossar sjáanlegir frá suðvesturhorni landsins. Tveir björtustu verða annars vegar klukkan 19:27:21 í vest-norðvestri í 22° hæð yfir sjóndeildarhring og hins vegar klukkan 19:35:57 í norðaustri í 53° hæð yfir sjóndeildarhring.
Ef veður leyfir, ætla ég út að fylgjast með.
- Sævar Helgi
Fljúgandi furðuhlutir í Mosfellsbæ? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 18.12.2011 kl. 21:47 | Facebook
Athugasemdir
skemmtilegt partýtrikk
Meira en bara sniðugt trikk. Þekking á gangi himintunglanna, t.d. um tímasetningu sólmyrkva hefur jafnvel verið notuð til að blekkja frumstæða ættbálka til undirgefni við hina "voldugu" nýlenduherra sem virðast hafa sjálfa dagsbirtuna á valdi sínu.
Guðmundur Ásgeirsson, 17.12.2011 kl. 18:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.