Stjarna með hægan púls

sxp1062.jpg

Þessi fallega mynd var tekin með tveimur geimsjónaukum og einum sjónauka á jörðu niðri, annars vegar Chandra röntgengeimsjónauka NASA og XMM-Newton röntgengeimsjónauka ESA og hins vegar Cerro Tololo Inter-American Observatory í Chile. Blái liturinn sýnir mjög heitar stjörnur sem gefa frá sér orkuríka röntgengeisla en rauðu og grænu litirnir sýna kaldara gas og ryk í sýnilegu ljósi.

Sjónaukunum var beint að svæði í Litla Magellansskýinu sem er fylgivetrarbraut okkar í um 200.000 ljósára fjarlægð. Bjarti bláhvíti bletturinn hægra megin er tifstjarna sem heitir SXP 1062 og vakið hefur áhuga stjörnufræðinga. Eins og sjá má er hún umlukin rauðleitri kúluskel sem er leif sprengistjörnunnar sem myndaði tifstjörnuna fyrir um 10.000 til 40.000 árum. 

Tifstjarnan er ofurþéttur kjarni stjörnunnar sem sprakk. Hún er tvisvar sinnum þyngri en sólin okkar en ekki nema um 24 km í þvermál. Mælingar stjörnufræðinga sýna að þessi tiltekna tifstjarna snýst óvenju hægt miðað við systurstjörnur sínar — um það bil einu sinni á 18 mínútum — sem snúast jafnvel nokkur hundruð sinnum á sekúndu. SXP 1062 er því ein hægasta tifstjarna sem fundist hefur. 

Og enginn veit af hverju.

Sjá einnig krakkafrétt http://www.stjornufraedi.is/krakkafrettir/nr/568

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband