22.12.2011 | 23:03
Halastjarnan Lovejoy með sýningu á himninum - glæsilegar myndir
Halastjarna sem menn vissu ekki af fyrir innan við mánuði síðan er skyndilega orðin að fallegustu sýningu himinsins á árinu!
Og ekki er hún síðri að sjá utan úr geimnum en þessa mynd tóku geimfarar í Alþjóðlegu geimstöðinni þann 21. desember. Hér er hún í fullri upplausn! Því miður höfum við þegar valið tíu bestu ljósmyndir ársins, því þessi kæmi svo sannarlega til greina! Hér má einnig sjá stórglæsilegt time-lapse!
Mynd: NASA
Þann 27. nóvember síðastliðinn tók ástralski stjörnuáhugamaðurinn Terri Lovejoy 200 ljósmyndir af suðurhimninum með átta tommu stjörnusjónaukanum sínum. Fljótlega eftir að halastjarnan fannst kom í ljós að um sérstaka tegund sólkærrar halastjörnu var að ræða, svokallaða Kreutz sólsleikju, sem stefndi óðfluga inn að sólinni eins og heitið gefur til kynna.
Þann 16. desember komst halastjarna Lovejoys næst sólinni, innan við 200.000 km frá brennheitu yfirborði hennar. Allir áttu von á að hún sundraðist við þessa raun en öllum að óvörum komst hún af! Myndskeiðið hér undir sýnir ferðalag hennar vel:
Degi eftir sólnánd tók Lovejoy mynd af halastjörnunni sinni að degi til. Halastjarnan er að fjarlægjast sólina og dofna í leiðinni en setur um leið á svið glæsilega sýningu á himninum eins og sjá má á myndinni hér undir:
Mynd: Colin Legg
Því miður sjáum við Íslendingar ekki þessa fallegu halastjörnu á jólahimninum. Hún er of sunnarlega til þess. Í staðinn verðum við bara að njóta mynda frá vinum okkar á suðurhveli.
Vá!
- Sævar Helgi
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:04 | Facebook
Athugasemdir
Já, nú væri gaman að vera fyrir sunnan og sjá þetta með eigin augum. En hversu sunnarlega þarf maður að vera?
Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 23.12.2011 kl. 00:11
Það þarf að fara alla vega suður undir miðbaug til að sjá halastjörnuna.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 23.12.2011 kl. 15:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.