17.1.2012 | 21:29
Ný og glæsileg mynd Herschel sjónaukans af Arnarþokunni
Það var árið 1995 sem ein frægasta ljósmynd Hubblessjónauka NASA og ESA var birt, þessi hér:
Mynd: Jeff Hester og Paul Scowen (Arizona State University), NASA, ESA
Þetta eru Stöplar sköpunarinnar, fæðingarstaður stjarna. Þeir minna dálítið á kalkspatsdrangla sem myndast upp úr gólfum kalksteinshella en eiga reyndar ekkert skylt við þannig jarðmyndanir.
Stöplarnir eru hluti af Arnarþokunni eða Messier 16 sem finna má í Höggorminum, fremur lítt þekktu stjörnumerki. Þokan og stöplarnir eru í um 7.000 ljósára fjarlægð sem þýðir að ljósið sem við sjáum frá henni í dag lagði af stað til okkar í kringum árið 5.000 f.Kr. Um svipað leyti fundu menn upp hjólið í Mesópótamíu. Hún sést með naumindum frá Íslandi en ég hef séð hana og stöplana líka með litlum linsusjónauka þegar ég var í stjörnuskoðun í Krýsuvík fyrir nokkrum árum.
Arnarþokan er mjög tignarleg geimþoka úr gasi og ryk þar sem nýjar stjörnur eru í mótun og þyrping heitra og massamikilla stjarna er nýmynduð. Þokan sést betur á þessari glæsilegu mynd sem tekin var í sýnilegu ljósi með sjónauka ESO:
Mynd: ESO
Björtu stjörnurnar innan um bleika skýið eru ungar og heitar. Þær gefa frá sér orkuríkt ljós og öfluga vinda sem móta stöplana fyrir neðan. Í stöplunum er gasið nógu þétt til að falla saman undan eigin þunga og mynda nýjar stjörnur. Þeir eru nokkur ljósár á lengd og mótast, lýsast upp og tortímast allt í senn vegna stjörnuvindanna og ljóssins frá stjörnunum fyrir ofan.
Nú hefur Herschel geimsjónauki ESA, Geimvísindastofnunar Evrópu, tekið nýja og stórglæsilega mynd af stöplunum og svæðinu í kringum þá:
Mynd: ESA/Herschel/PACS/SPIRE/Hill, Motte, HOBYS Key Programme Consortium.
Vá!
Myndin er tekin af fjar-innrauðu ljósi sem kalt efni (frá -260°C (rautt) upp í -220°C (blátt)) í þokunni gefur frá sér. Á þennan hátt er hægt að horfa í gegnum ryk sem venjulega byrgir okkur sýn. Myndin sýnir stjörnurnar sem eru innan í stöplunum óræka sönnun þess að þarna eru stjörnur að fæðast!
Stjörnufræðinga grunar að ein af þessum heitu og massamiklu stjörnum hafa þegar endað ævi sína með látum þegar hún sprakk fyrir um 6.000 árum. Reyndar munum við ekki fá að vita hvort það er rétt fyrr en eftir nokkur hundruð ár.
Eins og sjá má er mjög mikilvægt að rannsaka stjörnumyndunarsvæði eins og Arnarþokuna á ýmsum bylgjulengdum rafsegulrófsins. Aðeins þannig fæst heildstæð mynd af þeim ferlum sem eru í gagni. Það hjálpar okkur ekki aðeins að skilja hvernig stjörnurnar verða til, heldur líka hvernig þær vaxa og dafna og enda ævi sína.
- Sævar Helgi
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 18.1.2012 kl. 15:03 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.