19.1.2012 | 10:07
Námskeið, stjörnuskoðunarferð og reikistjörnurnar
Það eru nokkur atriði sem okkur langar til þess að segja ykkur frá sem eru á döfinni á næstu vikum.
Námskeið í stjörnufræði og stjörnuskoðun
Stjörnuskoðunarfélagið og Stjörnufræðivefurinn bjóða upp á námskeið fyrir börn og fullorðna í stjörnufræði og stjörnuskoðun í janúar og febrúar:
31. janúar og 1. febrúar Námskeið fyrir byrjendur í stjörnuskoðun
19. febrúar Námskeið fyrir börn
Bæði námskeiðin verða haldin í Valhúsaskóla. Allar nánari upplýsingar og skráningarform er að finna á námskeiðssíðunni á vef Stjörnuskoðunarfélagsins.
Stjörnuskoðun á Álftanesi sunnudaginn 22. janúar
Næstkomandi sunnudag munu Fugla- og náttúruverndarfélag Álftaness og Félag áhugamanna um sögu Bessastaðaskóla standa fyrir kynningu á himninum og stjörnuskoðun á Álftanesi.
Dagskráin hefst í Bessastaðakirkju, n.k. sunnudagskvöld 22. janúar klukkan 19:30-21:30
Það eru allir velkomnir og ekkert þátttökugjald. Einnig verður boðið upp á kakó í stjörnuskoðuninni. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Fugla- og náttúruverndarfélags Álftaness.
Reikistjörnur áberandi á himninum í vor
Þetta vor er sérlega heppilegt þegar kemur að reikistjörnuskoðun. Í janúar er hægt að sjá fjórar reikistjörnur með berum augum frá Íslandi (sumar sjást á kvöldin en aðrar á morgnana). Í febrúar sjást allar fimm reikistjörnurnar sem eru sjáanlegar með berum augum. Það er ekki oft sem þetta gerist. Vorið 2004 er þó eftirminnilegt að þessu leyti því þá var hægt að sjá allar reikistjörnurnar í einu að kvöldlagi sem er enn sjaldgæfara.
Hér er mynd af vesturhimni að kvöldlagi í síðari hluta febrúar. Venus og Júpíter eru mjög áberandi á himninum í janúar og febrúar en eftir einn mánuð verður einnig hægt að sjá Merkúr á kvöldhimninum.
Hér að neðan er mynd af Mars á austurhimni á sama tíma í lok febrúar. Hann er appelsínugulur að lit og reikar um himininn í kringum ljónsmerkið í vor. Satúrnus sést svo lágt á himni á morgunana í Meyjunni.
Báðar myndirnar eru úr stjörnufræðiforritinu Stellarium (sem er bæði ókeypis og á íslensku).
Einnig mælum við með Stjörnukorti mánaðarins þar sem hægt er að sjá staðsetningu reikistjarnanna og lesa sér til um þær og fleiri spennandi fyrirbæri á næturhimninum.
-Sverrir
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:18 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.