Norðurljósadansinn dunar áfram næstu daga

Íslendingar og aðrir íbúar á norðurslóðum fengu sérdeilis fallega norðurljósasýningu í gærkvöldi eins og sjá má. Þessa fallegu mynd af sýningunni tók Kristín Jónsdóttir í Skorradal og var svo vinsamleg að leyfa okkur að birta hana.

396608_10150619883559714_663824713_10846803_57898864_n.jpg

(Græni liturinn er af völdum súrefnis í um 100 km hæð en fjólublái liturinn af völdum niturs, nokkru hærra.)

Og líklegt er að norðurljósadansinn duni áfram næstu kvöld.

Síðastliðna nótt (23. janúar) varð M9 sólblossi á sólinni og honum fylgdi kórónuskvetta sem stefnir til jarðar (hér er ágæt skýringarmynd). Kórónuskvettur eru gusur af hraðfleygum rafhlöðnum ögnum, rafeindum og róteindum, eins og lesa má betur um á Stjörnufræðivefnum. Geislunarstormurinn sem fylgir er sá öflugasti sem mælst hefur frá árinu 2005. Stormurinn er það öflugur að hann gæti (ATH! lykilorðið er gæti) slegið út tölvur í jafntímagervitunglum (gervitunglum sem eru hvað lengst frá jörðinni) og truflað útvarpssamskipt við heimskautin.

617540main_sdo-still.jpg

Sólblossi 23. janúar 2012 (ljósa svæðið ofarlega á sólinni). Hægt er að sjá myndskeið af atburðinum hér. Mynd: NASA/SDO/AIA

Líkön stjörnufræðinga benda til að kórónuskvettan ferðist á rúmlega 2.000 km hraða á sekúndu. Á þeim hraða gæti skvettan náð til jarðar í fyrsta lagi á morgun, 24. janúar. Þetta þýðir að annað kvöld og jafnvel kvöldið þar á eftir, gætu enn glæsilegri norðurljós prýtt himininn yfir Íslandi en fólk sá í gærkvöldi.

Ágúst H. Bjarnason, bloggvinur okkar og stjörnuáhugamaður, hefur tekið saman allar helstu norðurljósaspár á netinu og sett á síðu sína hér.

(Marsbúar, ef einhverjir eru, fá líka sinn skerf af gusunni því hún er væntanleg þangað 25. janúar. Þá prísum við okkur sæl að hafa gott segulsvið sem ver okkur fyrir ósköpunum.)

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ef til vill hefur einhver gagn af að fylgjast með þessari vefsíðu: Norðurljósaspá.

Þar eru nokkrir ferlar og myndir sem uppfærast sjálfvirkt þegar síðan er opnuð.

Ferillinn sem er ofarlega og merktur Leirvogur gefur oft góða mynd af því sem er að gerast fyrir ofan Ísland.

Ágúst H Bjarnason, 23.1.2012 kl. 20:10

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

En hve þetta er fallegt að sjá.  Takk fyrir að deila þessu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.1.2012 kl. 22:19

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Má ég fá hana sem skjámynd?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.1.2012 kl. 22:20

4 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Ásthildur, ég held að þér sér fullkomlega frjálst að nota myndina sem skjámynd í tölvunni þinni.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 24.1.2012 kl. 08:11

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk kærlega fyrir það.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.1.2012 kl. 13:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband