25.1.2012 | 17:52
Þarna átt þú heima — Glæsileg mynd af bláa hnettinum í háskerpu
Mynd: NASA/NOAA/GSFC/Suomi NPP/VIIRS/Norman Kuring
Vá vá og vá!!
Hér eigum við heima, á fallegustu reikistjörnu sólkerfisins. Þessa stórkostlegu mynd af bláa hnettinum okkar tók Suomi NPP gervitungl NASA þann 4. janúar síðastliðinn. Ég mæli svo sannarlega með því að þú skoðir hana í meiri upplausn, til dæmis hér.
Á myndinni kennir ýmissa grasa.
Við hörfum augljóslega á meginland Norður Ameríku. Kaliforníuflói er mjög áberandi en rétt fyrir ofan hann sést dökk rák sem liggur í norður-suður. Það eru Fossafjöll (Cascade), fjallgarðurinn mikli sem nær frá Kaliforníu til Kanada. Í fjallgarðinum er fjöldi frægra eldkeila eins og Rainierfjall og Sankti Helena. Þessi fjallgarður verður til þegar Juan de Fuca flekinn rekur undir Norður Ameríkuflekann eins og hér má sjá.
Í Mexíkóflóa er grænn þörungalitur áberandi, lífæð hafsins.
Suomi NPP gervitunglið er hluti af fjarkönnunartunglum NASA sem fylgjast stöðugt með ástandi jarðar skýjafari, höfum, gróðri, jöklum og lofthjúpnum. Því var skotið á loft 28. október í fyrra og er á pólbraut um jörðina í um 800 km hæð. Tilgangur tunglsins er að fylgjast með áhrifum loftslagsbreytinga á jörðina. Gervitunglið hringsólar um jörðina fjórtán sinnum á dag og nær um leið að ljósmynda nánast allt yfirborð hennar. Um borð eru fimm mælitæki en stærst og mikilvægast er VIIRS myndavélin sem tekur ljósmyndir bæði í sýnilegu og innrauðu ljósi. Þessi glæsilega mynd var einmitt tekin með henni.
Hægt er að fræðast meira um jörðina á Stjörnufræðivefnum.
- Sævar Helgi
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.