Geimferjan Enterprise í Reykjavík 1983!

discovery1.jpgÍ gær var geimferjan Discovery flutt til Washington þar sem hún mun fara á eftirlaun og standa á geimferðasafni Smithsonian. Eftir að hafa fylgst með lágflugi Discovery í eigin persónu í gærmorgun, þar sem hún sveif yfir Washington á bakinu á Boeing 747 þotu, minntist ég þess að móðir mín sagði mér eitt sinn að hún hafi séð sams konar geimferju fyrir um 29 árum síðan, nánar tiltekið á fæðingadeild Landspítalans þar sem hún hélt á mér nýfæddum. Eftir að hafa vísað frásögn mömmu gömlu á bug í hljóði (ofskynjanir hljóta að vera algeng einkenni stuttu eftir að fæða barn, er það ekki?), grennslaðist fyrir um þennan atburð og viti menn, mamma er ekki geðveik eftir allt saman. Í dagblöðum frá vorinu 1983 má finna lýsingu á ferðalagi Enterprise geimferjunnar sem var á leið á flugsýningu í París of hafði viðkomu á Keflavíkurflugvelli. Enterprise var eins konar móðurskip geimferjanna sem á eftir komu, þ.e. Columbia, Challenger, Atlantis, Discovery og Endeavour. Ferjan var byggð sem tilraunargeimferja sem var meðal annars notuð til aðflugsprófana en hún fór aldrei í leiðangur út í geim þar sem hún hafði ekki fullbúinn hitaskjöld. Eflaust muna margir eldri eftir því þegar Enterprise sveif lágt yfir Reykjavík eins og sést á myndunum fyrir neðan. Geimferjurnar sem á eftir komu gegndu lykilhlutverki í geimferðum NASA, m.a. Var það Discovery sem kom Hubble sjónaukanum á braut um jörðu (því miður fórust bæði Challenger (1986) og Columbia (2003)).

enterprise2.png   enterprise1_1147349.png   

enterprise5.png   enterprise4_1147352.png

Það er merkilegt til þess að hugsa, að þegar ég sá þetta furðuverk mannkyns í fyrsta skipti vorið 1983 (að er mér sagt), markaði það upphaf geimferjuáætlunarinnar. Þetta voru þeir tímar þegar framfarir í geimvísindum voru miklar og bjartsýni ríkti ennþá eftir sigurfarir Apollo geimfaranna. Margir þeirra sem eldri eru hér í NASA Goddard Space Flight Center ákváðu að verða vísindamenn meðan þjóðin sótti innblástur til afreka NASA. Ímyndið ykkur hvernig það hefur verið að sjá Enterprise svífa yfir Reykjavík! Þegar Íslendingar höfðu varla komist í kynni við tölvu. Þegar skífusímar voru á hverju heimili. Hvítgljáandi Enterprise-geimferjan hefur litið út eins og eitthvað úr Star Wars myndunum (þriðja myndin, Return of the Jedi, kom í kvikmyndahús um svipað leyti). Þetta voru tímar sem fólk kunni að dreyma og hafði fulla ástæðu til að láta sig dreyma. Árið 1983 héldu margir að aðeins væru um 10-20 ár þangað til mannkynið væri komið til Mars. Hvað gerðist?

Í stuttu máli, er svarið eftirfarandi: kalda stríðinu lauk. Það er dapurlegt til þess að hugsa að stór afrek þarfnast stríðs og ótta. Raunar vita flestir ekki að NASA var stofnað í kjölfar þess að Rússar hófu að koma Sputnik förunum á braut um jörðu. Þegar stríðinu lauk, þá var ekki lengur þörf á afrekum. Þessa vísu hefur stjarneðlisfræðingurinn Neil DeGeasse Tyson oft kveðið og ég mæli með þessu myndbandi

Nú 29 árum eftir heimsókn Enterprise til Íslands er geimferjuáætlunin að klárast og er sú staða komin upp að Bandaríkin komast ekki út í geim án hjálpar annara þjóða. Fjárframlög til NASA eru brotabrot af því sem áður var og mörg glæsileg verkefni hafa endað í ruslafötunni á meðan lítið er talað um meira í fjölmiðlum vestanhafs en hvernig skuli koma efnahag landins á réttan kjöl. NASA og aðrar tæknimiðaðar stofnanir liggja ennþá undir skurðhnífnum þótt menn viti vel að gróska í geimferðum á sjöunda og áttunda áratugnum skilaði inn mun meiru út í efnahaginn en búist var við (eitthvað mat áætlaði að fyrir hvern einasta bandaríkjadal sem fór í Apollo verkefnin, skiluðu átta dalir sér tilbaka út í efnahaginn). Við Íslendingar erum ekki með geimferðaráætlun (fyrir þá sem ekki vissu :-). En sömu lögmál gilda fyrir tæknigeirann okkar. Verðmætin skila sér að miklum hluta tilbaka út í samfélagið. Því langar mig til að hvetja sem flesta sem eru sammála og þykjast kunna að dreyma til að skrifa undir þessa áskorun til Ríkisstjórnarinnar um að efla sjóði Vísinda- og tækniráðs:

 

Skrifa undir

 Kári Helgason

 



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ég man vel eftir þessu og á kannski til mynd af geimskutlunni sem ég tók frá Öskjuhlíð.

Auðvitað er ég búinn að skrifa undir... :-)

Ágúst H Bjarnason, 18.4.2012 kl. 06:45

2 identicon

Man vel eftir að hafa séð hana frá Hallarflötinni, smbr leikskýrslu úr leik Víkings og Breiðabliks:http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1574468

einn leikmaðurinn kom með uppástungu „Er ekki réttast aö gera smá hlé á leiknum meðan hún fer yfir." Það heföi ekki spillt neinu"

Man ekkert eftir leiknum enda virðist hann hafa verið lélegur!

Björn Friðgeir (IP-tala skráð) 18.4.2012 kl. 06:59

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er skrítið til þess að hugsa að kalda stríðið lifir enn í Norður-Kóreu og þar eru menn einmitt að reyna að koma einhverju út í geim við litlar vinsældir annarra.

Að sjálfsögðu fylgdist ég með þegar geimskutlan sveif á breiðþotunni yfir Miðbæinnn og Vatnsmýrina.

Emil Hannes Valgeirsson, 18.4.2012 kl. 10:00

4 Smámynd: Reputo

Ég man eftir þessu. Ég var u.þ.b. 6 ára gamall og stóð úti á fótboltavelli og fylgdist með þessu og man þetta nokkuð skýrt ennþá. Ég var svo hughrifinn af þessu að amma og afi gáfu mér líkan af flugvélinni með geimskutlunni á í afmælisgjöf stuttu seinna. Ég á það enn í dag þótt farið sé að sjá svolítið á því.

Reputo, 20.4.2012 kl. 21:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband