24.4.2012 | 08:52
Hvaða augum líta börn jörðina utan úr geimnum?
Í haust tökum við þátt í bráðskemmtilegu alþjóðlegu verkefni þar sem vísindum og listum er blandað saman. Tilgangurinn er ekki aðeins að örva sköpunargáfu barna, heldur líka að víkka sjóndeildarhring þeirra og sýna þeim að þau eru umfram allt þegnar jarðarinnar.
Verkefnið er kanadískt að uppruna en unnið í samstarfi við UNAWE verkefnið og snýst um að mála mynd af jörðinni utan úr geimnum eins og hún kemur börnum fyrir sjónir.
Einn stór strigi verður sendur ásamt penslum og málningu til 12 landa í fjórum heimsálfum yfir sex mánaða tímabil: Kanada, Íslands, Indlands, Indónesíu, Írlands, Marokkó, Hollands, Nígeríu, Suður Afríku, Spánar, Austur Tímor og Tansaníu. Fyrsta stoppið verður í Hollandi en síðan fer striginn í ferðalag með UNAWE hópnum til Austur Tímor fyrir þvergöngu Venusar.
Hvert málverk mótast af því hvernig börnin sjá jörðina með sínum augum en litast líka af þjóðerni þeirra.
Lokaútgáfan verður til sýnis á söfnum í Kanada en mun líka halda í ferðalag til annarra landa. Ferlið verður tekið upp og mun verkefnisstjórinn útbúa stutta heimildarmynd af ferðalagi stringans og listamönnunum að störfum.
Áhugavert verður að sjá útkomuna sem verður án efa glæsileg. Vonandi getum við sýnt hana hér á Íslandi líka.
Krakkavænar stjörnufræðifréttir
Á Stjörnufræðivefnum birtast nú krakkavænar útgáfur af nýjustu fréttum af himingeimnum. Fréttirnar eru unnar í samvinnu við áðurnefnt UNAWE verkefni og eru hugsaðar fyrir börn frá átta ára aldri. Fréttirnar koma meðal annars frá Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli (ESO), öflugustu stjörnustöð heims og Chandra röntgengeimsjónauka NASA. Sömu fréttir birtast í íslenskum útgáfum á vefsíðum UNAWE og ESO undir heitinu Space Scoop. Hægt er að lesa krakkafréttirnar með því að smella á lógóin efst til hægri í aðalútgáfum fréttanna.
UNAWE, sem stendur fyrir Universe Awareness for Young Children, er alþjóðlegt verkefni sem nýtur stuðnings Alþjóðasambands stjarnfræðinga, UNESCO og 7. rammaáætlunar Evrópusambandsins um vísindi og menntun. Markmið þess er að efla áhuga yngstu kynslóðarinnar á vísindum og tækni. Yfir 40 þjóðir taka þátt í verkefninu og sér Stjörnufræðivefurinn um framgang þess á Íslandi, til dæmis með því að standa fyrir námskeiðum fyrir kennara og börn um stjörnufræði.
Sjá nánar
Minnum að lokum á Stjörnufræðivefinn á Facebook og svo nýja Facebook síðu ESO á Íslandi.
- Sævar Helgi
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.