6.8.2012 | 06:18
Curiosity lentur - Velkomin til Mars!
Uppfært kl. 16:11 - Vá! Þessa stórkostlegu mynd tók Mars Reconnaissance Orbiter af Curiosity koma inn til lendingar:
Mynd: NASA/JPL/University of Arizona
- - -
Curiosity jeppinn lenti heilu og höldnu á yfirborði Mars klukkan 05:40:39 að íslenskum tíma í morgun eftir 563 milljón km ferðalag. Á sjö mínútum hægði hann ferðina úr 5 km/s niður í 0,04 metra á sekúndu!
Það er svipað og að hægja för bíls úr 100 km hraða á klukkustund niður í 0 m/s á rúmum tveimur sekúndum!
Fyrstu myndirnar sem bárust voru litlar, svarthvítar víðmyndir frá Hazcam myndavélunum, sem eru undir jeppanum, í gegnum hlíf sem varði linsurnar fyrir ryki sem þyrlaðist upp (dökku deplarnir eru rykagnir):
Curiosity á Mars!
Eins og sjá má eru engar sandöldur framundan sem þýðir að fyrsta ökuferðin verður „auðveld“. Jeppinn mun mest ná 4 cm hraða á sekúndu en líklegt að hraðinn verði alla jafna helmingi minni.
Gögnin streymdu frá Mars Odyssey geimfari NASA sem er á sveimi um Mars. Fljótlega eftir lendingu var geimfarið komið úr kallfæri við Curiosity en ný gögn munu berast eftir rúma klukkustund þegar þetta er skrifað.
Jeppinn fer í gegnum prófanir á næstu dögum og byrjar svo að aka um yfirborðið. Ekki verður anað að neinu. Eftir tæptl ár eða svo verður jeppinn við rætur Sharpfjalls. Það er nefnilega margt áhugavert að sjá á leiðinni þangað.
Ég mun uppfæra bloggið og væntanlega Stjörnufræðivefinn þegar nýjar fréttir berast
Þetta er stórkostlegt afrek!
Velkomin til Mars!
- - - -
Uppfært kl. 08:12 - Nýjustu myndirnar bárust frá Mars Odyssey rétt í þessu og sýna meðal annars barm Gale gígsins í fjarska. Næsti fréttamannafundur verður haldinn klukkan 16:00 í dag þegar fólkið í Kaliforníu er búið að sofa örlítið. Meira þá!
Curiosity á Mars. Í fjarska sést barmur Gale gígsins
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:14 | Facebook
Athugasemdir
Frábært!
Sigurður Þór Guðjónsson, 6.8.2012 kl. 13:16
Sórkostlegt tækniverk hefur verið fullnusta með þessari lendingu.
Hvert þekkingarskref mannsins verður til með samstilltu átaki.
Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu næstu mánuði og lengur.
Sigurður Alfreð Herlufsen, 6.8.2012 kl. 14:34
Vonandi finnst eitthvað krassandi!!
DoctorE (IP-tala skráð) 6.8.2012 kl. 19:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.