Sjáðu bestu loftsteinadrífu ársins 13.-14. desember

Ef veður leyfir fimmtudagskvöldið 13. desember skaltu horfa til himins. Þetta kvöld (og reyndar föstudagskvöldið líka) nær loftsteinadrífan Geminítar hámarki.

Geminítar eru oft besta loftsteinadrífa ársins. Um hana er fjallað í nýjasta þætti Sjónaukans:

Sjónaukinn 3. þáttur - Horft til himins í desember from Stjörnufræðivefurinn on Vimeo.

(Ef þú ert að nota spjaldtölvu eða síma og sérð ekki þáttinn, smelltu þá hér)

Í ár má búast við því að sjá um eða yfir 100 stjörnuhröp á klukkustund. Þú gætir sem sagt séð alla vega eitt stjörnuhrap á mínútur, jafnvel fleiri.

Öll virðast stjörnuhröpin stefna úr stjörnumerkinu Tvíburunum (Gemini) og dregur drífan nafn sitt af því. 

Dularfullir Geminítar

image_full.jpgFlestar loftsteinadrífur má rekja til ísagna sem hafa losnað af halastjörnum á leið þeirra í kringum sólina.

En Geminítar eru harla óvenjulegir.

Þá má nefnilega rekja til smástirnis — ekki halastjörnu.

Smástirnið nefnist 3200 Phaethon og er aðeins 5 km að stærð. Ef til vill hefur efni losnað af því þegar það gerðist nærgöngult við sólina. Sannast sagna er það þó ekki vitað.

Hugsanlega er 3200 Phaethon lítið brot úr smástirninu Pallas sem er hundrað sinnum stærra og eitt stærsta smástirnið í smástirnabeltinu.

Af öllum þeim efnisstraumum sem jörðin plægir sig í gegnum ár hvert, er Geminíta slóðin einna þéttust. Þessi drífa svíkur þess vegna sjaldnast.

Stjörnuhröpin sem þú sérð verða til þegar agnir á stærð við sandkorn eða litla steina falla í gegnum lofthjúp jarðar. Agnirnar ferðast á 35 km hraða á sekúndu að meðaltali svo þegar ein þeirra rekst á lofthjúpinn gufar hún hratt upp vegna núnings og skilur eftir sig hvíta slóð.

wally-pacholka1.jpg

Sérstaklega bjartur Geminíti springur fyrir ofan Mojave eyðimörkina í Bandaríkjunum þann 14. desember 2009. Mynd: Wally Pacholka / Astropics.com / TWAN

Hvert á að horfa?

Aðstæður til að fylgjast með Geminítum þetta árið eru kjörnar því tunglið er undir sjóndeildarhring frá okkur séð og truflar þess vegna ekki.

Ekki er þörf á neinum sérstökum búnaði til að fylgjast með drífunni, aðeins augu (þótt vissulega gæti verið skemmtilegt að beina stjörnusjónauka að Júpíter og fleiri fyrirbærum sem eru á lofti um nóttina).

Komdu þér vel fyrir á dimmum stað, fjarri borgar- og bæjarljósunum, fimmtudagskvöldið 13. desember og horfðu í austurátt.

Notaðu stjörnukortið hér undir til að finna Kastor og Pollux, björtustu stjörnurnar í tvíburamerkinu en geislapunktur drífunnar er rétt fyrir ofan Kastor.

geminitar.jpg

Tvíburamerkið er á lofti fram á morgun en virknin verður sennilega mest þá, rétt áður en birtir af degi (besti tíminn til að fylgjast með er því föstudagsmorguninn 14. desember)

Leggstu á jörðina, láttu fara vel um þig og horfðu til himins!

Prófaðu að telja stjörnuhröpin og láttu okkur svo vita (t.d. á Facebook) hvað þú sást mörg!

- Sævar Helgi Bragason


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ÆÐISLEG grein! Kærar þakkir! Hef leitað víða að góðum upplýsingum um nákvæmlega hvernig, hvar og hvenær maður eigi að bera sig að við að njóta þessa sjónarspils. Þessi grein gaf mér allt og skemmtilegan fróðleik í þokkabót! A+ :D

Hlynur Ingi Rúnarsson (IP-tala skráð) 12.12.2012 kl. 20:43

2 identicon

Frábært framtak Sævar. Hreint gull fyrir kennara sem eru að kenna stjörnufræði að nota svona upplýsingar til að vekja áhuga nemenda og hugsanlega draga þá út úr "pöddunum" sínum inn í veruleikann eða þannig :-)

Kveðja frá náttúrufræðikennara

Valdimar Helgason (IP-tala skráð) 12.12.2012 kl. 23:30

3 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Ég þakka hrósið! Það er gaman að vita af því að einhverjir geti notað þetta sem maður er að berjast við að koma á framfæri.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 13.12.2012 kl. 16:37

4 identicon

Klukkan hvað byrjar þetta í kvöld ?

Birgir (IP-tala skráð) 13.12.2012 kl. 17:06

5 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Þetta ætti að sjást í allt kvöld, alla nótt og fram í birtingu. Besti tíminn er í fyrramálið en það er um að gera að kíkja bara einhvern tímann í kvöld.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 13.12.2012 kl. 17:27

6 identicon

Ég las einhversstaðar að reiknað er með mesta styrkinum um tvöleytið, en það var ekki tekið fram í hvaða tímabelti það væri.

Snýst hámark drífunnar frekar um hvar jörðin er staðsett á sporbaug sínum heldur en hvernig hún "snýr"?   S.s. þetta byrjar ekkert fyrr fyrir austan við okkur, heldur ætti þetta að vera jafnt yfir alla jörðina á meða drífunni stendur?

Daníel Freyr Jónsson (IP-tala skráð) 13.12.2012 kl. 17:45

7 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Já, það er voða erfitt að áætla hámarkið fyrir hvern stað í heiminum og svo sem erfitt að tímasetja það yfir höfuð. Það er bara best að fylgjast bara með.

Hámarkið er stundum staðbundið, einmitt eftir því hvernig jörðin snýr. Ég man eftir Leonítadrífunni árið 1999 þar sem fólk í Asíu varð vitni að enn glæsilegri drífu en við í vestur Evrópu og Bandaríkjunum.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 13.12.2012 kl. 20:59

8 identicon

Lætin eru byrjuð, svona 2-3 hröp úr austri á 5 mín fresti upp úr kl 23. Heldur hærra á himni svo tekur í hálsinn að horfa nánast beint upp hérna í Grafarvoginum. Góða skemmtun!

Ásbjörn E. Torfason (IP-tala skráð) 13.12.2012 kl. 23:23

9 identicon

Takk kærlega fyrir ábendinguna, við höfum verið að fylgjast með sjónarspilinu síðan kl. 23. Við erum stödd í Árneshreppi á Ströndum, loftið er nokkuð tært, logn og smá frost. Ljósmengun er engin og norðurljósin hafa dansað um norður og norðvestur himinn í kaupbæti ;)

Steinunn Jónatans (IP-tala skráð) 14.12.2012 kl. 00:25

10 identicon

Fórum upp fyrir hafravant var aleg mangað að sja þetta.

Birgir (IP-tala skráð) 14.12.2012 kl. 03:17

11 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Frábært hvað þið hafið verið dugleg að horfa til himins! Ótrúlega gaman fyrir okkur að lesa þetta!

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 14.12.2012 kl. 11:40

12 identicon

Frábært Lesning ! og fróðleg; spurning um að ná í stjörnukíkirinn niður í geymslu ?

Loafar kvöldið nóttin góðu?

doddi (IP-tala skráð) 14.12.2012 kl. 18:00

13 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Kíkinn í geymslu? Hann á auðvitað að vera uppi og alltaf til reiðu!

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 14.12.2012 kl. 19:20

14 identicon

Er ekkert að gerast nú á föstudagskvöld? Agalegt að missa af þessu. Ætli að prufa að mynda þetta.

Oskar (IP-tala skráð) 14.12.2012 kl. 22:46

15 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Jú, föstudagskvöldið og nóttin eru líka fín þótt drífan sé að fjara út.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 14.12.2012 kl. 23:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband