Stórkostleg mynd af Satúrnusi og fjöll Miðgarðs á Títan

saturnus_cassini_181212.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech/SSI

Ó-mæ-vááááá!!! (Smelltu tvisvar til að stækka)

Verst að vera búinn að velja tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins. Og tvo ný augnakonfekt á einum degi!

Cassini geimfar NASA tók þessa stórkostlegu mynd af Satúrnusi. Sólin er á bakvið Satúrnus á myndinni og lýsir upp hringana og reikistjörnuna á ansi tilkomumikinn hátt.

Myndir á borð við þessa er aðeins hægt að taka þegar sólin er fyrir aftan Satúrnus, svo hér er um fremur sjaldséð sjónarspil að ræða. Síðast tók Cassini samskonar mynd í september 2006 en á henni birtist jörðin í gegnum hringana.

Á þessari mynd sjást einnig tvö af meira en 60 tunglum Satúrnusar: Ístunglin Enkeladus og Teþýs, bæði vinstra megin við reikistjörnuna, undir hringunum. Enkeladus er nær hringunum en Teþýs neðar og til vinstri.

Myndin var tekin í gegnum innrauðar, rauðar og fjólubláar síur úr 800.000 km fjarlægð frá Satúrnusi, fjarlægð sem samsvarar rúmlega tvöfaldri fjarlægðinni milli jarðar og tunglsins.

Fjöll á Títan bera nöfn úr Hringadróttinssögu

pia16598.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech/University of Arizona/USGS

Hér fyrir ofan er kort af Títan, stærsta tungli Satúrnusar, þar sem tilgreind eru þau fjöll á ístunglinu sem hafa hlotið opinber heiti frá Alþjóðasambandi stjarnfræðinga. Öll fjöll á Títan eru nefnd eftir fjöllum í Miðgarði úr Hringadróttinssögu Tolkiens.

Kortið var búið til úr gögnum frá sýnilega- og innrauða litrófsritanum VIMS og ratsjártækinu í Cassini geimfari NASA.

Gígurinn Tolkien er á Merkúríusi en fjöllin sem hann skapaði eru á Títan.

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband