24.12.2012 | 09:46
Sjáðu Júpíter og tunglið á Jóladagskvöld
Kort úr Stellarium sem er ókeypis hugbúnaður og til á íslensku!
Á kvöldhimninum í desember er konungur reikistjarnanna Júpíter mest áberandi líkt og undanfarna mánuði. Um þetta er fjallað í þættinum okkar, Sjónaukanum.
Horfðu til himins á jóladagskvöld, 25. desember.
Í austri sérðu Júpíter og tunglið, sem þá er næstum fullt, hlið við hlið, rétt fyrir ofan Regnstirnið, stjörnuþyrpingu í Nautinu.
Prófaðu að beina handsjónauka að þessari fallegu samstöðu.
Við blasir tignarleg sjón: Júpíter og Galíleótunglin fjögur auk mánans okkar innan um nokkra tugi glitrandi stjarna.
Rétt fyrir ofan fylgjast systurnar sjö Sjöstirnið með tvíeykinu.
Systurnar sjö eru dætur Atlasar þess sem ber heiminn á herðum sér og Pleiónu.
Eitt sinn varð veiðimaðurinn Óríon hugfanginn af systrunum. Seifi leist þó illa á þann ráðahag og hreif systurnar til himna.
Þar gengur Óríon á eftir þeim á hverri nóttu en er ætíð úr seilingarfjarlægð.
Systurnar og foreldrar þeirra eru björtustu stjörnurnar í þyrpingu sem telur líklega yfir eitt þúsund stjörnur.
Allar urðu þessar stjörnur til úr sömu geimþokunni fyrir um 100 milljónum ára eða svo.
Sjöstirnið ber ýmis nöfn á erlendum tungumálum.
Flestir kannast sennilega við japanska heitið á þyrpingunni, þótt fæstir tengi það við þyrpinguna, en það er nafnið Subaru. Bifreiðategundin er einmitt nefnd eftir Sjöstirninu en í merki fyrirtækisins eru stjörnurnar sýndar.
Sama má segja um stærsta stjörnusjónauka Japana sem er á Mauna Kea á Hawaii.
Prófaðu að skoða þessa glæsilegu þyrpingu með handsjónauka eða stjörnusjónauka með litilli stækkun og víðu sjónsviði.
Horfðu til himins um jólin!
Stjörnufræðivefurinn óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla!
- Sævar Helgi
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.