Loftsteinadrífa í ársbyrjun - Halastjörnur á himni árið 2013

Árið 2012 var fengsælt fyrir okkur stjörnuáhugafólk og stjörnuskoðunarárið 2013 lofar ansi góðu.

Það byrjar að minnsta kosti vel því næstkomandi fimmtudagsmorgun, 3. janúar 2013, nær loftsteinadrífan Kvaðrantítar hámarki.

8272801105_96d7fb2511_h.jpg

Geminíti og norðurljós yfir Vestmannaeyjum. Mynd: Óskar Elías Sigurðsson

Þessi drífa er ekki svo ólík Geminítum — sem margir fylgdust með um miðjan desember síðastliðinn og urðu ekki fyrir vonbrigðum — en Kvaðrantítarnir standa skemur yfir og er erfiðara að sjá.

Kvaðrantítar draga nafn sitt af stjörnumerki sem er ekki til lengur: Múrkvaðrantinum (Quadrans Muralis). Merkið var búið til árið 1795 úr stjörnum milli stjörnumerkjanna Hjarðmannsins og Drekans.

Múrkvaðrantar voru mikið notaðir af stjörnufræðingum fyrri tíma, t.d. Tycho Brahe, til þess að mæla hnit stjarnanna og kortleggja himinhvolfið. Þessi tiltekni

Kvaðrantíta má, eins og Geminíta, rekja til smástirnis en ekki halastjörnu. Smástirnið nefnist 2003 EH1 en stjörnufræðingar telja að það sé hluti af kulnaðri halastjörnu sem tvístraðist fyrir nokkrum öldum.

Þegar Kvaðrantítar eru í hámarki sjást stundum yfir 100 loftsteinar á klukkustund (meira en einn á mínútu). Hámarkið er öflugt en stendur stutt yfir, aðeins í fáeinar klukkustundir.

Auk þess er tunglið er hálft minnkandi á himninum og birtan frá því mun draga eitthvað úr fjölda sýnilegra stjörnuhrapa.

Þau sem vilja reyna að sjá drífuna ættu að taka daginn snemma fimmtudagsmorguninn 3. janúar. Eins og gildir alltaf um loftsteinadrífur er best að koma sér vel fyrir í góðu myrkri fyrir utan borgar- og bæjarmörkin.

Farið út nokkru fyrir dögun og horfið í aust-norðaustur. Notið stjörnukortið hér undir til að finna stjörnumerkin Hjarðmanninn, Drekann og Stórabjörn. Geislapunktur drífunnar er mitt á milli þeirra. Á þessu svæði á hiimninum ættu flest stjörnuhröpin að sjást.

screen_shot_2012-12-29_at_4_24_20_pm.png

Kort úr Stellarium hugbúnaðinum sem er ókeypis og á íslensku!

Látið okkur svo endilega vita, t.d. á Facebook, hvort þið sáuð eitthvað.

Tvær halastjörnur á himni árið 2013?

Árið 2013 gætu tvær halastjörnur prýtt himininn á norðurhveli.

Við höfum þegar fjallað um halastjörnuna ISON sem, ef allt gengur eftir, mun prýða jólahimininn á næsta ári. Hún gæti orðið bjartasta halastjarna sem sést hefur um áratugaskeið. 

Í byrjun mars næstkomandi gæti halastjarnan Panstarrs orðið áberandi á himninum hjá okkur. Sú halastjarna fannst árið 2011 og ef bjartsýnustu spár ganga eftir, gæti hún orðið álíka björtustu fastastjörnur á himninum. Við fjöllum betur um hana síðar í Sjónaukanum.

Við krossleggjum fingur og vonum það besta. Það væri algjör draumur að fá tvær glæsilegar halastjörnur á árinu.

Markverðustu tíðindi stjarnvísindaársins 2012

Undirritaður var í spjalli við Pétur Halldórsson í síðasta þætti Tilraunaglassins á árinu og fór þar yfir það markverðasta sem gerðist í geimvísindum árið 2012. 

Hægt er að hlusta á þáttinn hér.

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband