Spennandi geimvísindaár framundan

Það er spennandi ár framundan í geimvísindunum. Á árinu verða fjórir nýir sendifulltrúar jarðarbúa sendir út í sólkerfið, auk þess sem stærsti stjörnusjónauki heims verður tekinn í fulla notkun.

Byrjum á geimferðunum.

change-3-likan.jpgStærsta verkefni ársins er án efa Chang’e 3 leiðangur Kínverja til tunglsins. Chang’e 3 verður fyrsta geimfarið til að lenda mjúklega á yfirborði tunglsins frá því að sovéska farið Luna 24 lenti þar árið 1974.

Chang’e 3 er í raun tvö geimför: Lendingarfar sem vegur meira en tonn og jeppi sem vegur rúmlega 100 kg.

Í lendingarfarinu er lítill stjörnusjónauki sem nemur útfjólublátt ljós frá orkuríkum fyrirbærum eins og virkum vetrarbrautakjörnum. Á tunglinu er nefnilega hægt að stunda stjörnuathuganir samfellt í eina tunglnótt sem er næstum tveggja vikna löng. Til þess að tryggja að þetta sé hægt er lendingarfarið kjarnorkuknúið eins og Curiosity jeppinn. Að auki mun farið fylgjast með virkni sólar og áhrifum geimveðurs á jörðina.

Jeppinn mun aka allt að tíu kílómetra og gera rannsóknir á berghulunni (jarðvegi tunglsins), bæði efnafræðilegar og þykktarmælingar. Auk þess verður væntanlega hægt að fylgjast með ökuferð jeppans í beinni útsendingu.

Þetta er spennandi leiðangur sem fer á loft seint á þessu ári.

LADEE er annar tunglleiðangur. Þetta litla og ódýra bandaríska gervitungl á að rannsaka næfurþunnan lofthjúp tunglsins og ryk í námunda við það. LADEE fer á loft í ágúst á þessu ári.

Í ár verða tvö geimför send til Mars, annað bandarískt en hitt indverskt.

441593main_maven2-540.jpgMAVEN nefnist bandaríski leiðangurinn en markmið farsins er að rannsaka lofthjúp Mars og áhrif sólar á hann. Lofthjúpur Mars var eitt sinn miklu þykkari en nú eins og sjá má af öllum þeim ummerkjum fljótandi vatns sem er á yfirborðinu. Mars hefur því glatað stórum hluta lofthjúpsins út í geiminn og á MAVEN að varpa ljósi á þau ferli sem þar eru að verki. Mælingar Curiosity frá yfirborðinu munu hjálpa vísindamönnum að túlka mælingar MAVEN. Farið mun síðan gegna hlutverki samskiptatungls milil Mars og jarðar.

Indverski leiðangurinn nefnist Mangalyaan sem er einfaldlega hindí fyrir Mars-far. Þetta er fyrsta geimfarið sem Indverjar senda út í sólkerfið en áður hafa þeir sent könnunarfar til tunglsins. Markmið leiðangursins er fyrst og fremst að sýna fram á að Indverjar hafi tæknilega getu til þess að senda geimfar til annarrar reikistjörnu. Í leiðinni verða þó gerðar rannsóknir á lofthjúpnum, ekki ósvipaðar þeim sem MAVEN á að gera.

ALMA tekin í notkun

potw1252a.jpg

Mynd: ESO/B. Tafreshi (twanight.org)

Í mars verður stærsti stjörnusjónauki heims tekinn í fulla notkun. Atacama Large Millimter/submillimeter Array verður röð 66 loftneta sem dreifast yfir allt að 16 km breitt svæði. Með hjálp hálægustu og einnar öflugustu ofurtölvu heims verður hægt að breyta loftnetunum 66 í einn risasjónauka.

Loftnetin nema ljós með millímetra- og hálfsmillímetra bylgjulengd sem köldustu fyrirbæri alheimsins — til dæmis köld, dökk stjörnumyndunarský — gefa frá sér.

Þótt sjónaukinn sé ekki tilbúinn er hann fyrir löngu orðinn öflugasti sjónauki sinnar tegundar í heiminum og er þegar byrjaður að gera merkar uppgötvanir um myndun sólkerfa.

eso1301a.jpg

ALMA (ESO/NAOJ/NRAO)/M. Kornmesser (ESO)/Nick Risinger (skysurvey.org)

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband