Sjáðu halastjörnu með berum augum á himninum

Seinni hluta marsmánaðar gefst þér kostur á að sjá halastjörnu með berum augum. Það gerist ekki ýkja oft svo þú ættir ekki að missa af tækifærinu.

Halastjarnan nefnist PanStarrs og mun hún sjást skömmu eftir sólsetur út marsmánuð og fram í apríl (eða þar til hún er bæði orðin of dauf og sumarbirtan tekur við). Fjallað er um þennan gest í nýjasta þætti Sjónaukans sem sjá má hér undir:

Sjónaukinn 7. þáttur - Horft til himins í mars 2013 from Stjörnufræðivefurinn on Vimeo.

Þann 5. mars var PanStarrs næst jörðinni, þá í rúmlega 160 milljón km fjarlægð frá okkur. Fimm dögum síðar, þann 10. mars, kemst hún næst sólinni og nær þá hámarksbirtu. Þá sést hún best frá suðlægari slóðum en Íslandi en smám saman fjarlægist halastjarnan sólina og fer hækkandi á himninum. Um leið fer birta hennar dvínandi.

Þegar best lætur gæti PanStarrs orðið álíka björt (eða bjartari) og stjörnurnar í Karlsvagninum; sem sagt nógu björt til þess að hún sjáist nokkuð auðveldlega með berum augum.

Hvert á að horfa og hvenær?

Besti tíminn til að sjá halastjörnuna ætti að vera milli 12. og 20. mars en þá verður hún mjög lágt á vesturhimni við sólsetur. Hér undir eru tímasetningar úr Almanaki Háskóla Íslands á sólarlagi í Reykjavík (vertu úti um það leyti, halastjarnan ætti að birtast skömmu eftir sólarlag):

  • 12. mars - kl. 19:20
  • 13. mars - kl. 19:23
  • 14. mars - kl. 19:26
  • 15. mars - kl. 19:29
  • 16. mars - kl. 19:32
  • 17. mars - kl. 19:35
  • 18. mars - kl. 19:38
  • 19. mars - kl. 19:41
  • 20. mars - kl. 19:44

Til að sjá PanStarrs er mikilvægt að koma sér fyrir þar sem hvorki fjöll, byggingar né gróður trufla útsýnið til sjóndeildarhringsins í vesturátt. Halastjarnan er nefnilega mjög lágt á himninum um þetta leyti og það gæti orðið örlítið krefjandi að finna hana.

panstarrs-kort-12-24-mars.jpg

Halastjarnan PanStarrs verður lágt á himni upp úr miðjum marsmánuði. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Andri Ómarsson

Að kvöldi 13. mars gæti útsýnið orðið sérstaklega fallegt. Þá birtist halastjarnan á himninum við sólsetur, skammt frá mjórri vaxandi mánasigð.

Sjaldgæft er að sjá tunglið og halastjörnu saman á dimmbláum himni.

Notaðu handsjónauka. Þótt halastjarnan sjáist með berum augum er útsýnið enn betra með handsjónauka. Þá sést halinn líka betur.

Skannaðu vesturhimininn með handsjónaukanum þegar sólin er horfin undir sjóndeildarhring.

Þegar líður á marsmánuð færist halastjarnan smám saman ofar á norðurhimininn, fyrst í gegnum stjörnumerkið Fiskana, þá Pegasus og svo yfir í Andrómedu í lok mánaðarins. Þá hefur hún dofnað talsvert og sést best með handsjónauka eða stjörnusjónauka.

panstarrs-kort-vitt.jpg

Kort af ferli halastjörnunnar PanStarrs yfir himininn fram á vor. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Andri Ómarsson

Við hvetjum ljósmyndara til að reyna að fanga sjónarspilið. Þið mættuð þá endilega deila myndunum með okkur, bæði með því að senda okkur myndir á netfangið stjornuskodun@stjornuskodun.is eða deila þeim á Facebook síðunni okkar.

Opið hús hjá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness

Eitthvert kvöldið milli 13. og 20. mars mun Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness hafa opið hús í Valhúsaskóla. Nákvæm dagsetning er háð veðri en stílað verður upp á stjörnubjart kvöld svo hægt verði að skoða halastjörnuna. Opna húsið verður auglýst bæði á vef félagsins og á Facebook síðu þess sem og Facebook síðu Stjörnufræðivefsins.

Upphitun fyrir halastjörnuna ISON

Við krossleggjum fingur og vonum að halastjarnan PanStarrs standi undir væntingum. Líta má á hana sem upphitun fyrir enn glæsilegri halastjörnu sem sjást mun í lok þessa árs, halastjörnuna ISON.

Horfið til himins!

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband